Fréttabréf frá stjórn – framtíð vallanna

Í desember sl. skipaði stjórn GR tvær vallarnefndir, aðra fyrir Grafarholt og hina fyrir Korpúlfsstaði.  Nefndirnar voru skipaðar stjórnarmönnum og félagsmönnum utan stjórnar. Þeir voru valdir út frá forsendum um að raddir mismunandi hópa, út frá aldri, kyni og getustigi, kæmust að, jafnframt því sem leitast var við að fá kylfinga með reynslu og sögu úr klúbbstarfinu.

Í nýlegri viðhorfskönnun voru spurðar ítarlegar spurningar um vellina, sem gefa stjórn enn frekari vísbendingu um vilja og viðhorf félagsmanna.

Í þessu fréttabréfi gerum við grein fyrir framtíðaráætlunum varðandi vellina og fylgja því tveir hlekkir, annars vegar á uppfært masterplan fyrir Grafarholtsvöll og hins vegar á fyrirhugaða áfangaskiptingu framvkæmda í Grafarholti

Von er á öðru fréttabréfi frá okkur innan skamms, sem snýr að opnun vallanna, hvað hefur verið gert í vetur og hvað er á döfinni í sumar.

Grafarholtið:
Verkefni Grafarholtsnefndarinnar var að yfirfara masterplan Tom McKenzie, sem hefur verið í gerjun og umræðu í kúbbnum um lengri tíma. Sum atriði í planinu hafa verið umdeild og þótti mikilvægt að fá álit félagsmanna, sem hafa spilað völlinn í jafnvel áratugi og hafa því sitt að segja um hvað er skemmtilegt og vel heppnað við völlinn, hvað megi bæta og hver karaktereinkennin eru. Guðmundur Arason, stjórnarmaður, fór fyrir nefndinni, en hann er í hópi þeirra sem þekkja völlinn hvað best, hafandi alist upp á honum og verið félagsmaður frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Nefndin hafði aðgang að Tom McKenzie og vallarstarfsmönnum klúbbsins í sinni vinnu. Samstarf þeirra á milli hefur gengið vel.

Helstu niðurstöður viðhorfskönnunar meðal félagsmanna eru að veikleikar Grafarholtsvallar séu ónóg gæði teiga, brauta, glompa og flata, og þá sérstaklega ósléttar brautir og hvers seinar flatirnar eru til á sumrin. Styrkleikar vallarins eru sagan, gróðurfar, náttúrufegurð, veðursæld, lega brauta og skemmtanagildi. Þrátt fyrir veikleikana er hann í miklu uppáhaldi hjá kylfingum. Ekkert í niðurstöðunum kemur á óvart en það er mikilvægt að fá þær svona beint í æð. Því skal einnig haldið til haga að ekki er um nýtt verkefni að ræða, heldur hefur það verið í undirbúningi í lengri tíma og fjárhagsstaða klúbbsins styrkt þannig að verkefnið verði viðráðanlegt.

Afrakstur af vinnu nefndarinnar sem og fyrri undirbúningi, að teknu tilliti til niðurstaða viðhorfskönnunarinnar, er uppfært masterplan sem stjórn GR hefur samþykkt að vinna eftir, en þó þannig að ekkert hafi verið meitlað í stein ennþá og einstakir áfangar verði ákveðnir hver fyrir sig. Eftirfarandi atriði eru höfð að leiðarljósi í planinu:

  1. Endurbætur á vellinum í núverandi mynd þannig að landslag, náttúra og karaktereinkenni haldi sér.
  1. Nokkrar afmarkaðar breytingar eru fyrirhugaðar, með að markmiði að gera völlinn enn betri og nútímanlegri. Með þeim fæst aukin lengd í völlinn á öftustu teigum, sérstaklega á fyrri 9 holunum, sem er mikilvæg til að viðhalda honum sem keppnisvelli. Gerð verður grein fyrir helstu breytingum hér síðar.
  1. Áherslan verður á vönduð vinnubrögð eftir bestu þekkingu, þannig að teigar, brautir, glompur og flatir verði í sem bestum gæðum jafnframt því sem rask á náttúru og landslagi verði sem minnst. Gætt verði að því að völlurinn verði sem hagkvæmastur í viðhaldi, vatn eigi greiða leið af honum og safnist ekki á óæskilegum stöðum, og loks bætt öryggi á vellinum.
  1. Völlurinn verður áfram keppnisvöllur og styrktur sem slíkur. Jafnframt verði framteigum gert hærra undir höfði þannig að hann henti kylfingum á öllum aldri og getustigum.

Helstu fyrirhugaðar breytingar eru:

  1. Gerð verður ný flöt á fyrstu holu fyrir aftan núverandi flöt og örlítið til hægri, auk þess sem gerður verður nýr bakteigur. Möguleikar á að slá á nýju flötina af teig verða hverfandi. Þetta mun flýta leik þar sem þeir högglöngu (a.m.k. flestir) þurfa ekki að bíða eftir flötinni. Brautinni verður beint meira til hægri til að lágmarka slysahættu á öðrum teig.
  1. Umfangmesta breytingin verður á 17. braut sem er endurhönnuð frá grunni. Teigstæði verða í hlíðinni vinstra megin við 16. braut og flötin niðri við tjörnina á 17. braut, með tjörnina fyrir framan og hægra megin við flöt. Upphafshögg verður slegið niður í móti, yfir lækinn og tjörnina, með frábæru útsýni. Örugga leiðin verður vinstra megin við holu og að eiga jafnvel eftir krefjandi vipp, en áhættuhöggið beint á stöng, sérstaklega ef holustaðsetning er hægra megin á flöt nærri tjörninni. Brautin verður tiltölulega stutt miðað við par 3 holu, sérstaklega af fremri teigum. Það gefur vellinum fjölbreytni þar sem hinar par 3 holurnar eru tiltölulega langar og krefjandi.
  1. Breytingin á 17. braut er svo forsenda fyrir fleiri mikilvægum breytingum, þar sem möguleiki opnast á að koma fyrir bakteigum á 4. og 18. braut nærri tjörninni. Þannig lengist 4. braut um ca. 50-60 metra og 18. braut fer yfir 400 metra frá bakteigum. Ekki er ætlunin að lengja þessar brautir á fremri teigum neitt sem heitið getur.
  1. Þegar gerð hefur verið ný flöt á 17. braut opnast möguleiki á að gera nýja flöt á 3. braut þar sem 17. flötin er í dag og ná þannig lengingu í 3. brautina. Þriðja brautin hefur jafnan verið lengsta par 4 hola vallarins og hefur sögu sem slík. Nokkur atriði hafa gert að verkum að hún spilast styttri en henni var ætlað í upphaflegri hönnun vallarins. Þegar gert var nýtt flatarstæði á 2. braut var bakteigur, sem var í hlíðinni þar fyrir ofan, færður til þannig að brautin styttist um rúma 20 metra. Fyrir nokkrum árum síðan var öll brautin þurrkuð upp og slétt, þannig að hún gefur rúll upp á jafnvel tugi metra, sem var ekki í gamla daga. Þá slá kylfingar lengra í dag en þeir gerðu, þökk sé nýrri tækni í kylfum og kúlum. Af þessum ástæðum þykir skynsamlegt, til að styrkja völlinn sem keppnisvöll, að ná lengingu á þessari braut vallarins og hún standi undir nafni sem löng og krefjandi par 4 hola.
  1. Gert er ráð fyrir færslu á nýrri fimmtu flöt hægra megin við núverandi flatarstæði og nær sjötta teig.
  1. Gert er ráð fyrir færslu á nýrri 10. flöt nær tjörninni hægra megin og setja hana þannig aðeins í leik.
  1. brautin hefur í gegnum tíðina verið umdeild hola og af mörgum álitin veikleiki á vellinum, sérstaklega þegar kemur að skemmtanagildinu. Masterplanið miðast við að ný flöt verði gerð vinstra megin við núverandi flöt, með sandgryfjum fyrir framan vinstra megin en einnig með greiðri leið inn á flötina með rúllandi boltum frá hægri hliðinni. Þá er til skoðunar að gera brekkuna framan við flötina meira aflíðandi. Ætlunin með þessu er að fá holu sem bíður upp á meiri fjölbreytni og skemmtanagildi heldur en núverandi braut.

Að öðru leyti en hér hefur verið talið upp er ætlunin að láta völlinn halda sér í núverandi mynd. Einhverjar breytingar kunna að verða á staðsetningum flata, á landslagi og staðsetningu glompa, en þær breytingar teljast minniháttar og verða að sjálfsögðu ekki gerðar nema þær þjóni sérstökum tilgangi. Á undanförnum árum hefur mest umræða verið um fyrirhugaðar breytingar á 7. og 11. braut. Sú fyrnefnda verður áfram til sérstakrar skoðunar. Vilji stendur til þess að núverandi flatarstæði haldi sér ef kostur er, að teknu tilliti til gæðasjónarmiða, en það verður rannsakað betur.  Í planinu er ekki gert ráð fyrir öðrum breytingum á 11. braut en að flötin verði löguð til og stækkuð, auk þess sem möguleiki er á nýju teigstæði fyrir framteiga með betra útsýni.

Framkvæmdaáætlun
Verkefnið hófst síðastliðið haust með því að 18. brautin fram að vegi var tekin upp. Nú í vetur var fyrsti teigur tekinn upp, en hann var úr sér genginn. Endanlegri mótun 18. brautarinnar og hleðslu á fyrsta teig verður lokið á næstu dögum og sáð um leið og veðuraðstæður leyfa. Markmiðið er að unnt verði að opna nýja 18. braut og 1. teig fyrir meistaramót, en til þess að það gerist þarf allt að ganga upp. Við verðum að vera reiðubúin því að þetta kunni að taka lengri tíma.

Á meðan á framkvæmd stendur verður 18. brautin spiluð sem par 3 hola af bráðabirgðateig inn á núverandi flöt og tekur vallarmat og forgjöf mið af því. Smíðaðir hafa verið fyrir okkur bráðabirgðateigar með góðu gervigrasi. Það er bylting frá því sem verið hefur hingað til, þar sem bráðabirgðateigar hafa verið tilviljanakenndir og oftar en ekki lélegir. Þessir nýju teigar eru með undirstöðum sem unnt er að hæðarstilla. Þannig verður slegið verður af sléttum flöt með góðu undirlagi, sem unnt er að tía í. Við eigum orðið nokkur svona teigasett og munu þau koma að góðum notum á næstu árum.

Ætlunin er að byggja upp nýja fyrstu flöt núna í vor. Það hefur tafið fyrir byrjuninni á þessu verki að veturinn var einstaklega erfiður til framkvæmda. Verkefnin sem farið hefur verið í hafa að mestu leyti verið unnin af okkar vallarstarfsmönnum. Þeir hafa núna í nógu að snúast við að undirbúa vellina okkar fyrir sumarið auk framkvæmdanna. Farið verður í fyrstu flötina um leið og tími til þess gefst.

Í viðhengi er áfangaskipting verkefnisins, í sjö áfanga. Við erum í áfanga eitt og munum síðan fikra okkur áfram eftir því sem ofar dregur, og mögulega tökum við einstök verkefni fram fyrir í röðinni ef það verður metið skynsamlegt. Tímasetning hvers og eins áfanga hefur ekki verið endanlega ákveðin.  Að mörgu er að hyggja í þeim efnum. Stjórn vill í lengstu lög komast hjá því að þurfa að loka einhverjum hlutum vallarins yfir lengri tíma. Á móti mæla hagkvæmnissjónarmið með því að vinna verkið í stærri áföngum og þannig lýkur verkinu fyrr. A.m.k. enn sem komið er hafa engar lokanir verið ákveðnar og eru verkefni, sem ekki krefjast lokunar, sett í forgang. Við munum fá mikla reynslu eftir því sem þessum fyrstu verkefnum vindur fram. Við munum átta okkur betur á umfangi verkefna, hve langan tíma þau taka (m.a. sáning vs. tyrfing) og hvers lags gæði við fáum samanborið við þau sem við höfum í dag. Við verðum því stöðugt að vera tilbúin til að endurmeta stöðuna og að sjálfsögðu munu viðhorf  félagsmanna einnig hafa mikið að segja.

Við í stjórninni væntum umræðu við félagsmenn í sumar um þessar áætlanir okkar. Markmiðin eru skýr, þ.e. að gera einstakan völl enn betri en hann er í dag og að þjónusta við  félagsmenn sem best.

Korpúlfsstaðavöllur:
Staðan á Korpúlfsstaðavelli er töluvert frábrugðin Grafarholtsvellinum. Völlurinn er tiltölulega ungur og glímir ekki við sambærileg gæðavandamál og Grafarholtið. Í viðhorfskönnun meðal félagsmanna kom völlurinn nokkuð vel út. Sömu þættir og voru veikleikar í Grafarholti eru styrkleikar á Korpúlfsstöðum, nema þá helst ástand sandglompa. Þá komu fram ábendingar um atriði sem megi bæta og snúa að frágangsatriðum og snyrtilegheitum á vellinum. Þá eru mikil tækifæri í að bæta Thorsvöllinn.

Brynjar Jóhannesson, stjórnarmaður, fór fyrir vallarnefnd Korpúlfsstaðavallar. Nefndin hefur leitast við að greina hvað megi betur fara og hvernig megi bæta völlinn. Vallarstarfsmenn hafa komið að þessu verkefni. Gerður hefur verið aðgerðalisti og markmiðið í sumar er ljóst, þ.e. að hafa völlinn í sem allra bestu standi.

Einn nefndarmanna, Arnór Ingi Finnbjörnsson, sem er jafnframt meðal okkar fremstu kylfinga hefur sett fram tillögur um nýja bakteiga á mörgum brautum, sem munu gera völlinn einstakan hér á landi sem keppnisvöll. Á hinum endanum eru framteigar, sem full ástæða er til að gera hærra undir höfði.  Rauðir teigar, sem lengi vel voru nefndir kvennateigar, henta mörgum en eru óþarflega langir fyrir suma. Við þurfum teigasett sem henta öllum. Í vetur var keypt beltagrafa, traktor og tengivagn, sem koma að mjög góðum notum við gerð teiga og við munum nýta okkur það.

Nú í vetur hefur verið gerður nýr upphækkaður framteigur á 17. braut (8. braut á Ánni), sem mun bæta brautina töluvert. Hann verður vonandi tilbúinn til leiks fyrir meistaramót. Einnig var farið í drenframkvæmdir á nokkrum völdum svæðum, en þær munu ekki trufla leik.

Hér að framan hefur verið fjallað um masterplan fyrir Grafarholtið. Sambærilegt plan er ekki til fyrir Korpúlfsstaði. Stjórn telur skynsamlegt að það verði gert. Það þarf ekki að fela í sér neinar meiriháttar hönnunarbreytingar. Markmiðið er fremur greina styrkleika og veikleika hverrar brautar og að haldið verði áfram að bæta völlinn smátt og smátt eftir ákveðnu skipulagi.

Eins og að framan greinir er markmiðið í sumar að allar lykkjurnar á Korpúlfsstöðum verði í sínu allra besta standi, með áherslu á snyrtilegheit og að “litlu atriðin” verði í lagi.

Kær kveðja og það styttist í að við sjáumst á völlunum.
Stjórn GR