Fréttabréf – opnun golfvallanna og fleira

Það er markmið okkar í GR að bæta starfið ár frá ári. Það er og verður alltaf eitthvað sem má bæta. Síðastliðin tvö ár höfum við gert ítarlegar viðhorfskannanir meðal félagsmanna, sem hjálpa okkur við ákvarðanatöku og hvar áherslur eigi að vera. Með tilliti til þess að nú erum við loksins að opna vellina okkar, þá viljum við koma nokkrum atriðum á framfæri.

Framkvæmdir og fjárfestingar
Í vetur var inniaðstaða á Korpúlfsstöðum endurbætt með uppfærðu æfingaherbergi fyrir barna-, unglinga- og afreksstarfið. Í golfskálanum Korpu var fjárfest í nýjum húsgögnum og ráðstafanir gerðar til að bæta hljóðvist í skálanum.

Fjárfestingar og framkvæmdir í Básum hafa vonandi ekki farið framhjá félagsmönnum, þar sem settir hafa verið upp hitalampar og Trackman skjáír í hvern bás jarðhæðar. Þá er vinna við uppsetningu á hurðum á 2. hæðar langt komin, sem er forsenda fyrir enn frekari bætingum á 2. hæðinni. Þessar breytingar hafa mælst vel fyrir og við hvetjum félagsmenn sem hafa ekki vanið sig á að æfa mikið í Básum að mæta og gefa því sénsinn. Í gær var tilkynnt að félagsmenn fái sérstaka inneign á boltakort í Básum, kr. 5.000, sem við hvetjum félagsmenn til að sækja og nýta sér.

Við endurnýjuðum samning GR við veitingafólkið okkar, sem Gummi og Mjöll fara fyrir. Þau hafa staðið sig með eindæmum vel og samstarf gott, eins og m.a. hefur komið í viðhorfskönnunum. Við bjóðum þau velkomin til leiks að nýju og væntum áframhaldandi góðs samstarfs.

Nú nýverið var tekin í gagnið ný heimasíða klúbbsins. Sú gamla var komin til ára sinna og bauð ekki upp á tæknilegar lausnir, sem nýja síðan gerir. Í þessu eru fólgin ný tækifæri sem við munum nýta okkur.

Reglur
Í samræmi við lagabreytingu á aðalfundi í desember sl. hefur stjórn sett sér ítarlegar starfsreglur. Þær eru birtar í uppfærðri reglubók klúbbsins, sem er að finna á heimasíðu okkar nánar hér

Vellirnir
Við höfum sent tilkynningar varðandi vellina. Þeir koma með eindæmum illa undan óhemju köldum vetri og vori. Það eru a.m.k. nokkrar vikur í að þeir komist í ásættanlegt ástand. Vallarstarfsmenn okkar hafa gert sitt og vorverkin verða fleiri en ella við svona aðstæður, með umfangsmiklum dúkunum, söndunum, þverskurðum flata og teiga og yfirsáningum, svo dæmi séu tekin. Þessar aðgerðir munu skila sér og sigrast á náttúrunni, en það mun taka tíma og krefst þolinmæði okkar.

Það hafa komið fram nokkrar hugmyndir og kenningar hvers vegna vellirnir á höfuðborgarsvæðinu koma svona illa undan, sérstaklega Korpan, og að a.m.k. sumir vellir utan höfuðborgarsvæðisins eru í mun betra ástandi. Vallarstarfsmenn eru sammála um að meginskýringin séu óvenju langir frostakaflar í vetur, með hlýindum á milli (í febrúar), sem virðast hafa vakið gróður af dvala, sem betur hefði verið látið ógert. Frost í jörðu náði niður fyrir meter, sem er fáheyrt. Því dýpra sem frostið nær, því lengur tekur það að fara. Enn í dag erum við ekki með öllu laus við frost í jörðu, en afleiðing þess er vatnssöfnun, lítill grasvöxtur og kalskemmdir á víð og dreif. Það er áberandi hversu illa nýsáningar frá því í fyrra eru illa út leiknar, en nýsáningar eru oftar en ekki fyrr til á vorin heldur en gamla grasið. Ein kenningin hefur verið að áburðargjöf síðasta haust kunni að hafa haft neikvæð áhrif. Því er til að svara að áburðargjöf var með sama sniði og undanfarin ár. Hvað sem kenningum líður, þá munum við kortleggja nákvæmlega hvaða svæði hafa farið illa út úr vetrinum og hver ekki, hvað megi læra og hvort grípa megi til fleiri fyrirbyggjandi aðgerða til að bregðast við vetrarhörkum eins og í vetur. Um þetta þurfum við góða skýrslu.

Gleymum ekki að í fyrra var vorið með eindæmum gott, en veðrið yfir sumarmánuðina var undir meðallagi, ekkert sérstakt ef svo má segja. Við leyfum okkur að vona að núna snúist dæmið við og við fáum gott sumar til að vega vorið upp. Við biðjum því félagsmenn um að sýna völlunum og starfsfólki þolinmæði og ganga „extra“ vel um vellina. Það er það besta sem við getum gert í stöðunni.

Í Grafarholti eru helstu framkvæmdir, eins og félagsmenn vita, nýja 18. brautin sem unnið var við í fyrra, og svo endurgerð 17. braut þar sem framkvæmdir standa yfir. Það er ekki ætlunin að hafa langt mál um þessar brautir í þessu fréttabréfi. 18. brautin kom verr undan vetri en við bjuggumst við og á nokkuð í land með að verða tilbúin til leiks, því miður. Við leggjum að sjálfsögðu áherslu á að það verði sem fyrst og að við munum sjá mun á henni dag frá degi. Þangað til verður brautin spiluð sem par 3 hola eins og í fyrra. Framkvæmdir á 17. brautinni eru skemmra á veg komnar, þó mikið hafi verið gert. Það jákvæða er að gamla brautin er og verður leikhæf þar til sú nýja verður opnuð. Við göngum út frá að hún verði spiluð með venjubundnum hætti frá gömlu teigunum yfir framkvæmdasvæðið af öftustu og næst öftustu teigum, en af bráðabirgðateig til hliðar við framkvæmdasvæði af fremstu og næstu fremstu teigum, þar sem fluglínan af gömlu teigunum er of löng fyrir fremri teiga. Framkvæmdasvæðið verður grund í aðgerð og fallreitur á braut til hliðar við það. Það er augljóst að þetta þýðir nokkra truflun á leik meðan á framkvæmdunum stendur, en við munum leggja okkur fram við að gera það sem hægt er til að halda truflunum í lágmarki.

Rástímaskráning, teigmerkingar, leikhraði o.fl.
Í fyrra tókum við upp breyttar rástímareglur. Helstu breytingar þá voru að hópaskráningar voru aflagðar, tekinn var upp 8 daga bókunarfrestur og teknar upp refsingar (skráningarbann) við að bóka sig og mæta ekki. Ræst var út á 8 mínútna fresti á báðum völlum.

Þessar breytingar gáfust í meginatriðum vel. Þær höfðu í för með sér aukið framboð á rástímum, nýting vallanna varð betri og það reyndist félagsmönnum auðveldara að fá rástíma heldur en árin á undan. Það gekk nokkuð vel að halda uppi leikhraða fyrri part sumars, en það er eins og hægst hafi á leik um eða eftir mitt sumar, sérstaklega í Grafarholtinu.

Við höfum endurskoðað reglurnar frá því í fyrra og þær er að finna hér. Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér þær vandlega. Helstu breytingar frá því í fyrra eru að fyrirvari til að afskrá sig er lengdur úr einni klukkustund í tvær. Tilgangurinn er að minnka líkur á að afskráður tími fari til spillist. Í Grafarholti verður ræst út á 8 og 9 mínútna millibili til skiptis í stað 8 mínútna í fyrra. Við vonumst til að það hjálpi við að halda uppi leikhraða. Við vildum ekki gefast alveg upp og fara aftur í 9 eða 10 mínútna bil, þar sem það myndi fækka rástímum svo um munar. Auk þess teljum við að of hægur leikhraði eigi sér fleiri orsakir heldur en bilið milli rástíma, sem við viljum láta reyna á hvort við getum séð við, eins og hér verður nánar útskýrt. Við tökum einnig fram að reynist þessar aðgerðir okkar ekki duga, þá höfum við það úrræði að auka bil enn frekar.

Eitt stærsta vandamálið, þegar kemur að leikhraða, er að stór hluti kylfinga leikur á teigum, sem eru of langir fyrir þá, miðað við högglengd, getu sem forgjöfin er ágætur mælikvarði á og aldur. Litmerkingar teiga eiga sér þá sögulegu skýringu að konur áttu að spila fremst (á rauðum), afrekskonur næst fremst (bláum), karlar næst aftast (gulum) og afrekskarlar aftast (hvítir, tiger), ef þannig teigar voru. Þessi hugsun er gersamlega úrelt og gerir golfið fyrir meðalkylfinginn og þá sem eru þaðan af styttra komnir í íþróttinni of erfitt, oftar en ekki að hreinu basli, þar sem höggin verða miklu fleiri en vellirnir voru hannaðir til. Annaðhvort þurfa þessir kylfingar þá að flýta sér um of eða að biðröð myndast fyrir aftan þá, sem dregur úr ánægju allra. Menn eru búnir að átta sig á þessu og sérstaklega að karlar eiga ekki að tengja ímynd við liti á teigum.

Til að stemma stigu við þessu höfum við ákveðið að fylgja fordæmi margra annarra klúbba og afnema með öllu litmerkingar á teigum, en kenna þá þess í stað við lengd valla frá viðkomandi teig. Skorkortin okkar hafa verið aðlöguð að þessu, sem og upplýsingar í golfbox. Ný teigmerki eru í pöntun. Þangað til við fáum þau afhent verðum við að notast við gömlu merkin til bráðabirgða, en þau standa hér eftir fyrir tilgreindar lengdir valla. Við hvetjum félagsmenn okkar til að velja sér teigasett í samræmi við getu og forgjöf. Það eykur ánægju viðkomandi að skorið batni og er aukinheldur það besta sem við getum gert til að halda uppi leikhraða, sem er afar mikilvægt í golfi. Það gengur ekki að golfhringur taki mikið meira en fjóra klukkutíma, eða þann tíma sem gefinn er upp sem hámarks leiktími á velli. Með því er eyðilagt fyrir öllum sem á eftir koma. Menn kólna og pirrast við ítrekaða bið og tímaáætlanir fara úr skorðum. Það er ekki í boði að kylfingar leyfi sér að vera eins lengi og þeim einum hentar. Það sem við öll getum gert, til að virða þetta, er, eins og áður segir, að velja teiga sem henta hverjum og einum, og meðvitund um að það er þáttur í golf- og siðareglum að halda leikhraða. Við hvetjum kylfinga einnig til að leita ráða hjá golfkennurum og öðrum sem reynsluna hafa, því það er margir litlir hlutir sem við getum gert til að hraða leik enn frekar, án þess að það hafi nokkur einustu neikvæð áhrif á skorið eða golfupplifunina nema síður sé.

Við höfum starfsfólk í vallarþjónustu. Það er þáttur í þeirra verklýsingu að fylgjast með leikhraða og að gera það sem í þeirra valdi stendur til að halda honum uppi. Við verðum að átta okkur á því að það eru takmörk fyrir því hvað vallarþjónustufólk getur gert hvað þetta varðar og það á ekki að vera fyrst í röðinni við að sakast, ef bið myndast. Það úrræði sem vallarþjónustufólk hefur helst eru almenn hvatningarorð og að leggja á það áherslu við kylfinga að þeir velji sér teiga við hæfi, og ef þeir sjá að holl er að dragast aftur úr, að leggja fyrir það að færa sig á fremri teiga. Það er samstarf kylfinga og vallaraðstoðarmanna að leikhraði haldist.

Reglur og áhersluatriði sem hér hafa verið nefnd ganga út á tvennt: Að sem flestir félagsmenn komist að (við erum með marga klúbbmeðlimi) fái rástíma – og að þeir fái þá lífsfyllingu sem golfhring er ætlað. Að haldið sé uppi leikhraða er lykillinn að hvorutveggja. Náist þessi markmið okkar um leikhraða ekki er varla annað eftir í stöðunni en að auka bil milli rástíma, sem þýðir að færri komast að, sem þarf þá að bregðast við með harkalegri aðgerðum, hvað varðar fjölda félagsmanna, félagsgjöld og/eða gæði valla og þjónustu. Við biðlum því til félagsmanna að standa með okkur í því að láta fyrirkomulagið, sem hér hefur verið lýst, ganga. Við erum öll í sama klúbbnum og þetta eru okkar hagsmunir!

Við bjóðum ykkur velkomna aftur á vellina með von um frábært golfsumar.

Stjórn & starfsfólk GR