Kæru félagsmenn, gleðilegt sumar!
Í ár er afmælisár, Golfklúbbur Reykjavíkur verður 90 ára. Það er markmið GR að á afmælisárinu verði vellirnir okkar í toppstandi. Framkvæmdum sem trufla leik verður haldið í algeru lágmarki. Sérstök afmælisdagskrá verður, sem öllum félagsmönnum gefst kostur á að taka þátt í, en dagskráin verður kynnt síðar. Félagsstarf sem tengist sumrinu er hafið, m.a. með GR deginum síðastliðinn laugardag, og kvennakvöldi nýverið þar sem um 120 konur voru mættar á Korpunni til að fara yfir kvennastarf sumarsins
Vellirnir okkar koma ágætlega undan vetri. Þeir eru frekar seinir til, enn smá frost í jörðu og frosthleypingar ennþá, sérstaklega í Grafarholtinu. Þrátt fyrir það líta vellirnir vel út og eiga að vera orðnir nokkuð góðir þegar þeir opna miðað við árstíma. Ástandið er allavega miklu betra en í fyrra en það var með eindæmum slæmt. Síðasta vika var hagstæð, nú þurfum við smá rigningu, sem von er á seinna í vikunni.
Við áætlum að opna Korpuna laugardaginn 11. maí og Grafarholtið viku síðar, 18. maí. Þessi áætlun er ekki meitluð í stein. Við opnum einfaldlega eins snemma og vallarstarstjórar telja það forsvaranlegt, en alls ekki fyrr. Félagsmenn verða upplýstir um þetta þegar nær dregur.
Við munum, svipað og í fyrra, skrifa ykkur á næstu tveimur vikum fleiri fréttabréf með praktískum upplýsingum um skráningarreglur, áherslur hvað varðar leik á völlunum okkar, markmið um leikhraða, hlutverk aðstoðar/eftirlitsmanna í þeim efnum og annað sem varðar klúbbmeðlimi.
Okkur er sérstök ánægja að skýra frá því að litamerkingar teiga verða aflagðar. Ný teigmerki eru komin í hús þar sem mismunandi teigar eru auðkenndir miðað við lengd vallar á hverjum teig fyrir sig. Þetta mun auðvelda kylfingum að velja teigasett sem hæfa aldri og getu fremur en kyni. Einnig er það markmið okkar að fjölga enn frekar teigum á völlunum okkar og þar með valkostum kylfinga og stjórna álagi. Með því verða teigarnir einnig betri.
Framkvæmdir í Grafarholti
Eins og félagsmenn sjálfsagt muna opnuðum við endurgerða 18. braut í fyrra, jafnframt því sem unnið var að gerð nýrrar 17. brautar sem mun koma í stað þeirra gömlu. Þessar brautir líta mjög vel út eftir veturinn. Vonandi getum við opnað þessar brautir á sama tíma og hinar. Það er raunar engin spurning með 18. braut, en hvort 17. braut þurfi viku eða tvær umfram aðrar brautir á eftir að skýrast betur, en hún lofar mjög góðu.
Þessu til viðbótar er frágangur á nýjum bakteigum á 4. og 18. braut á lokastigi, en þeir og umhverfi þeirra er hluti af útsýni á nýju 17. brautinni frá teig.
Í vetur hefur verið unnið að endurmótun og sléttun fyrri hluta 4. brautar, og gerð nýrrar flatar á 1. braut aftan við núverandi flöt. Því næst verður farið í gerð nýrrar flatar á 3. braut í stað þeirrar gömlu. Staðan á þessum framkvæmdum er sú að jarðvinna á 4. braut er á lokastigi og hún verður tyrfð við fyrsta tækifæri. Við fáum torf frá uppsveitum Árnessýslu. Það sem við bíðum nú eftir er að frost fari úr jörðu þar þannig að unnt verði að taka torfið upp og flytja til okkar. Eftir að brautin verður tyrfð á ekki að líða að löngu þar til hún verður leikhæf. Við gerum ráð fyrir að þurfa að spila brautina styttri af bráðabirgðateig fyrstu vikurnar eftir opnun.
Vinna við gerð flatar á 1. braut er komin vel á veg. Sú vinna truflar leik ekki neitt. Hið sama á við um vinnu við gerð nýrrar 3. flatar er þar að kemur.
Þannig að ef frá eru taldar fyrstu vikurnar eftir opnun (segjum 2-3 vikur), þá verður Grafarholtsvöllur spilaður án nokkurra truflana af framkvæmdum í sumar.
Uppstig á milliteiga á 5., 8. og 12. braut hafa verið endurgerð, en þau voru farin að gefa sig.
Framkvæmdir á Korpu
Síðastliðið sumar var gerð ný æfingapúttflöt nærri fyrstu teigum á Sjónum og Landinu. Hún lítur vel út, fyrir utan smá skemmdir sem þarf að laga. Við áætlum að opna inn á þessa flöt og að hún verði orðin mjög góð vel fyrir Meistaramót.
Stóra framkvæmdin á Korpunni þetta ár er malbikun stíga. Allir stígar á Sjónum hafa verið malbikaðir og hluti stíga á Landinu. Seinni hluti þessa verkefnis, þ.e. Áin og hluti Landsins, verður unnin næsta vetur. Eftir malbikun stíga tekur við frágangur í kringum þá, sem okkar vallarstarfsmenn sjá um. Þetta er mikil vinna og biðjum við félagsmenn að sýna því þolinmæði, en hún á ekki að trufla leik neitt. Þetta er stórt og mikið verkefni og mun stórbæta gæði Korpunnar og snyrtilegheit, þar sem malarstígarnir voru víða til vandræða.
Aðrar framkvæmdir:
- Svæði á 1. braut Sjónum í kringum hólana á miðri braut hefur verið lagað til.
- Nýr framteigur á 1. braut Sjónum. Þessi teigur er lítið eitt framar en sá gamli og meira til hægri. Gamli framteigurinn hefur verið afmáður, sem bætir útsýni á brautina af aftari teigum.
- Nýr framteigur á 3. braut Sjónum. Þessi frábæra braut var ósanngjörn af framteigum, þar sem hún var of löng og árbakkinn of mikið í línu. Nýr teigur mun gera þessa holu betri af framteigum og fækka vandræðum við leik á þessari holu.
- Nýr framteigur á 4. braut Sjónum. Hér á það sama við og um 3. braut, hún var of löng af framteigum og fæstir sem náðu á ákjósanlegan stað eftir teighögg. Nýr framteigur mun gera þessa holu skemmtilegri og flýta leik á þessari frábæru holu.
- Nýr bakteigur á 5. braut Sjónum. Þetta er liður í að gera völlinn lengri og meira krefjandi sem keppnisvöll.
- Nýr framteigur á 8. braut Sjónum. Hér eiga við sömu rök og á 3. og 4. braut. Markmiðið er að gera framteigana stærri, betri og í hæfilegri lengd.
- Nýr bakteigur á 12. braut Ánni. Rökin þau sömu og fyrir 5. braut.
- Nýr bakteigur á 13. braut Ánni. Rökin þau sömu og fyrir 5. og 12. braut, en þessi nýi teigur, auk trjáfellinga ármegin brautar, breyta ásýnd þessarar holu töluvert.
- Trjá- og gróðurfellingar vinstra megin við 15. braut Ánni. Áin verður sýnilegri og þessi góða braut gerð snyrtilegri en hún var.
Við höldum áfram að vinna eftir ráðgjöf sænska arkitektsins Magnusar Suneson. Síðastliðið sumar var unnið eftir nýjum sláttulínum og við væntum þess að þær verði sýnilegri í ár en í fyrra og hafi jákvæð áhrif á ásýnd vallarins í heild, sem og einstakra brauta.
Annað
Sérstök áhersla verður á að gera Thorsvöll betri. Þessi völlur er mun betri en margir kylfingar átta sig á, en tækifærin til bætinga eru til staðar og þau ætlum við okkur að nýta.
Einnig höfum við einsett okkur að hafa skil milli framkvæmda á völlunum og daglegrar stjórnunar og vallarumhirðu skýrari, þannig að hvorugt bitni á hinu og að Thorsvöllur verði ekki útundan. Við höfum bætt í mönnun til að ná markmiðum um þetta.
Golfkveðja, og meira frá okkur fljótlega,
Stjórn og starfsfólk GR