Fréttir af völlum Golfklúbbs Reykjavíkur

Góðan dag kæru félagsmenn,

Nú þegar sól er farinn að hækka á lofti og vorið að sýna sig fyllumst við eftirvæntingar fyrir komandi golfsumar. Þessa dagana er undirbúningur vallarstarfsmanna í fullum gangi fyrir opnun vallanna okkar. Vorverkefnin við að standsetja báða velli fyrir átökin framundan eru mörg og ganga vel. Það hefur þó ekki farið framhjá neinum að tíðarfarið hefur verið óhagstætt, þar sem seinni partur vetrarins einkenndist af óvenju löngum frostakafla. Enn er frost í jörðu og nær lengra niður en elstu menn muna eftir. Þá var aprílmánuður óvenju kaldur og þurr. Gróður er því almennt um fjórum til fimm vikum síðar á ferðinni heldur en í fyrra.

Vellirnir okkar eru ekki tilbúnir ennþá og ekki unnt að tímasetja opnun þeirra með nokkurri vissu. Við kappkostum við að opna eins fljótt og unnt er, án þess þó að tefla völlunum í tvísýnu. Við fylgjum ráðleggingum fagmanna okkar um þetta. Síðustu dagar hafa þó verið hagstæðir og framundan er vonandi vænlegri tíð með vætu og hærri hitatölum, sem hraða vonandi endurheimt vallanna eftir veturinn.

Tilkynning um opnun vallanna verður gefin út um leið og forsendur fyrir því liggja fyrir. Við munum einnig, svipað og í fyrra, skrifa ykkur á næstunni fréttabréf með praktískum upplýsingum um skráningarreglur og áherslur hvað varðar leik á völlunum okkar, markmið um leikhraða, hlutverk aðstoðar/eftirlitsmanna í þeim efnum og annað sem varðar klúbbmeðlimi. Okkur er sérstök ánægja að skýra frá því að litmerkingar teiga verða aflagðar.  Ný teigmerki eru í smíðum þar sem mismunandi teigar eru auðkenndir miðað við lengd vallar á hverjum teig fyrir sig. Þetta mun auðvelda kylfingum að velja teigasett sem hæfa aldri og forgjöf viðkomandi fremur en kyni eingöngu.

Framkvæmdir í Grafarholti:
Síðastliðið sumar voru meginframkvæmdir í Grafarholti gerð nýrra teiga á fyrstu holu og endurgerð 18. brautar. Teigarnir á fyrstu braut eru frágengnir og við opnum væntanlega inn á þá á sama tíma og völlinn sjálfan. Hvernig til tókst með 18. braut hefur áður verið lýst, en nú fer að koma í ljós hvernig hún kemur undan vetrinum kalda. Vonir okkar standa til þess að brautin muni taka mikið við sér á næstu 2-4 vikum. Á þessum sömu vikum verður endursáð í brautina til að þétta hana, gert við sár sem myndaðist í drensvæðum brautarinnar, glompur frágengnar, gengið frá uppstigum á teiga og unnið við önnur frágangsverkefni. Við gerum fastlega ráð fyrir að opna brautina í næsta mánuði, en hvenær nákvæmlega er ekki tímabært að segja til um.

Síðastliðið haust var hafist handa við gerð nýrrar 17. brautar. Til að gera langa sögu stutta, þá hafa framkvæmdir við hana gengið mjög vel í vetur og eiga starfsmenn okkar hrós skilið fyrir gríðarmikla vinnu við erfiðar aðstæður. Framkvæmdir hafa verið á áætlun og jafnvel á undan, þar til fyrir tveimur vikum eða svo, þar sem ekki var unnt að afhenda okkur sand.  Sandnáman sem við notum var einfaldlega frosin og sandur óafhendingarhæfur. Það var ekki fyrr en í lok síðustu viku að við fengum fyrstu vörubílahlössin. Næstu dagar og vikur munu því fara í að fínmóta flöt og svæði umhverfis hana og því næst sáð. Sem hluti af sömu framkvæmd verða gerðir nýir bakteigar fyrir 4. og 18. braut en þeir verða báðir staðsettir fyrir aftan nýju flötina á 17. brautinni. Þessu til viðbótar fáum við afhenta nýja brú yfir Grafarlæk sem slegið verður yfir, nýir stígar malbikaðir og gengið frá nýjum teigasettum.  Áætlun okkar miðast við að framkvæmdir við nýju 17. brautina trufli sem minnst leik við gömlu 17. brautina þar til sú nýja opnar, en við gerum þó ráð fyrir að koma fyrir gervigrasteig til bráðabirgða sem viðbótarmöguleika. Við hvetjum kylfinga til að fá sér göngutúr nú fyrir opnun og skoða þessar viðamiklu framkvæmdir.

Hér er hægt að lesa sér til um framkvæmdir og framtíðarsýn Grafarholtsvallar

Framkvæmdir á Korpu:
Á Korpunni stendur yfir gerð nýrrar æfingapúttflatar nærri fyrstu teigum á Sjónum og Landinu. Síðastliðið sumar skilaði sænski golfvallararktektinn Magnus Sunesson til okkar masterplani, til að þróa völlinn áfram og gera enn betri. Hann mun koma til okkar seinna í mánuðinum til að hjálpa til við staðsetningu á sláttulínum og fleiru. Við væntum þess að kylfingar muni sjá töluverðan mun á vellinum frá því í fyrra, án þess að til hafi þurft stórframkvæmdir. Eins og segir í enskunni, „the devil is in the detail“.

Sérstök áhersla verður á að gera Thorsvöll betri. Þessi völlur er mun betri en margir kylfingar átta sig á en tækifærin eru til staðar til að gera hann ennþá betri og það ætlum við okkur að gera. Völlurinn verður merktur upp á nýtt með sömu gerð af teigskiltum og eru á hinum völlunum.

Vinavellir GR
Það er ánægjulegt að segja frá því að nú þegar hefur verið skrifað undir vinavallasamninga við 10 golfklúbba sem félagsmenn geta nýtt sér í sumar, einhverjir þeirra hafa þegar opnað og því hægt að nýta sér vinavallakjör á meðan beðið er eftir því að okkar vellir opni.

Allar upplýsingar um vinavelli félagsins er að finna á vefsíðunni undir Golfvellir – Vinavellir

Golfkveðja,
Stjórn og starfsfólk GR