Garðavöllur og Hamarsvöllur áfram í hópi vinavalla

Félagsmenn geta áfram nýtt vinavallasamninga á Garðavelli hjá Golfklúbbnum Leyni og Hamarsvelli hjá Golfklúbbi Borgarnes en vinavallasamningar fyrir golfsumarið 2022 hafa nú verið undirritaðir. Báðir vellir hafa verið vel sóttir af félagsmönnum á undanförnum árum og má reikna með að þær vinsældir haldi áfram á komandi sumri.

Opið er fyrir leik á Garðavelli og mun Hamarsvöllur opna fyrir almenna skráningu miðvikudaginn 11. maí.

Félagsmenn GR hafa tveggja daga bókunarfyrirvara á báða velli og fá vallargjald á vinarvallarkjörum, kr. 3.500, þegar þeir skrá sig sjálfir í gegnum Golfbox. Að öðru leyti gilda sömu reglur um leik á völlunum og öðrum vinavöllum félagsins. Áður en leikur hefst skulu félagar staðfesta félagsaðild sína og ganga frá greiðslu vallargjalds. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti, sbr. fyrirtækjamót.

Ef félagsmenn ætla að skrá sig með fyrirvara umfram þann bókunarfyrirvara sem tilgreindur er hér að ofan þarf að gera það í gegnum skrifstofu GL og GB og er vallargjald þá kr. 5.000 pr. kylfing.

Með þessar viðbót eru vinavellir GR fyrir komandi tímabil orðnir átta og má búast við að eitthvað bætist í á næstu dögum. Allar upplýsingar um vinavelli má finna hér á vefnum undir Golfvellir – Vinavellir

Gleðilegt golfsumar!
Golfklúbbur Reykjavíkur