Kæru félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur,
Við fögnum 90 ára afmæli klúbbsins með miklu stolti og hlökkum til að bjóða ykkur velkomin til afmælisveislu sem haldin verður á Korpu á sjálfan afmælisdaginn, laugardaginn 14. desember næstkomandi.
Húsið verður opið frá kl. 12:00 til 14:00 og verður boðið upp á spennandi dagskrá. Stjórn og starfsfólk verður á staðnum og verða myndbönd og myndir sýndar af fyrirhuguðum framkvæmdum ásamt þeim verkefnum sem eru í gangi hjá klúbbnum.
Boðið verður upp á veitingar, afmæliköku og fleira spennandi sem við vonum að þið munið njóta. Á 2. hæð verður svo haldið afmælis púttmót sem öllum er velkomið að taka þátt í og verða glæsilegir vinningar í boði.
Við hlökkum til að sjá ykkur og fagna saman þessum merkilega áfanga í sögu Golfklúbbs Reykjavíkur.
SAGA GOLFKLÚBBS REYKJAVÍKUR
Golfklúbbur Reykjavíkur hét upphaflega Golfklúbbur Íslands og var stofnaður þann 14. desember 1934. Klúbburinn var þá eini golfklúbbur landsins og var nafninu svo breytt þegar fleiri golfklúbbar urðu til. Stofnun klúbbsins má rekja til Kaupmannahafnar, en þar voru Íslendingar við nám og störf sem höfðu komist í kynni við golfíþróttina. Sumir þessara manna urðu seinna áberandi í íslensku þjóðfélagi, má þar meðal annars nefna Svein Björnsson, fyrrverandi forseta Íslands, Gunnlaug Einarsson lækni, sem var formaður klúbbsins fyrstu árin, og Valtýr Albertsson lækni.
Þakkir til félagsmanna
Við viljum einnig nýta tækifærið til að þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa stutt Golfklúbb Reykjavíkur á þessum 90 árum. Þið hafið gert klúbbinn að því sem hann er í dag. Takk fyrir ykkar framlag.
Með bestu kveðjum,
Stjórn og starfsfólk Golfklúbbs Reykjavíkur