Samningur GR og Reykjavíkurborgar

GR og Reykjavíkurborg hafa undirritað samning, sem gerir GR kleift að byggja íþróttahús – inniæfingaaðstöðu – sem verður tengd Básum.  Samningurinn gerir langt með að tryggja fjármögnun þessarar byggingar ásamt annarri fyrirhugaðri uppbyggingu.

Meginatriði samkomulagsins eru þessi:

  1. Lóð við Krókháls hefur verið deiliskipulögð með byggingarrétti og er í söluferli.
  1. Lóð vinstra megin við 2. braut á Korpúlfsstöðum (Sjónum) verður skipulögð fyrir íbúðabyggð og byggingarréttur seldur.
  1. Hluti andvirðis rennur til GR til uppbyggingar.

Deiliskipulagning téðra lóða, sem er innan svæðis GR samkvæmt lóðarleigusamningum, er ekki með öllu sársaukalaus fyrir GR. Útisvæði Bása þarf að aðlaga, með tilliti til lóðarinnar við Krókháls.  Þá mun þurfa að breyta hönnun 2. brautar á Korpúlfsstaðavelli (Sjónum), en það er mat stjórnar GR að möguleikar séu á að gera brautina enn betri en hún er í dag.  Á móti kemur að fjármögnun nauðsynlegra fjárfestinga hefur verið tryggð og framkvæmdir gerðar mögulegar á skömmum tíma, án þess að það sligi fjárhag klúbbsins.

Þessi samningur er stór áfangi hjá GR.  Nú verður kappkostað við að ljúka hönnun íþróttahússins og nýrrar vélageymslu, þar sem markmiðin eru að gera aðstöðuna sem allra besta, jafnframt því sem leitast verður við að byggja á sem hagkvæmastan máta.

Kappkostað verður við að upplýsa félagsmenn um framvindu þessara mála.

Kveðja,
Stjórn GR