Guðrún Brá og Kristján Þór sigurvegarar Korpubikarsins sem leikinn var í samvinnu við Icelandair

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, og Kristján Þór Einarsson, GM, sigruðu í Korpubikarnum sem fram fór í samvinnu við Icelandair á Korpúlfsstaðavelli dagana 19.-21. ágúst 2022.

Mótið var jafnframt lokamótið á stigamótaröð GSÍ.

Keppniformið var höggleikur í flokki karla og kvenna, 54 holur leiknar, 18 holur á föstudegi, 18 holur á laugardegi og 18 holur á sunnudegi.

Guðrún Brá lék frábært golf og lék samtals á 12 höggum undir pari vallar. Hún sigraði með 12 högga mun. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, Íslandsmeistari í golfi 2022, varð önnur á pari vallar og Berglind Björnsdóttir, GR, varð þriðja á 2 höggum yfir pari.

Kristján Þór, sem er Íslandsmeistari í golfi 2022, lék á 18 höggum undir pari vallar sem er samkvæmt bestu heimildum besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á 54 holum.

Axel Bóasson, GK, sem er þrefaldur Íslandsmeistari, átti einnig frábæra þrjá keppnisdaga en hann lék á 16 höggum undir pari vallar. Hlynuyr Bergsson, og Hjalti Hlíðberg Jónasson, sem eru báðir úr GKG, og Böðvar Bragi Pálsson, GR léku allir á 8 höggum undir pari vallar.

Alls léku 16 leikmenn í mótinu í karlaflokki undir pari vallar – sem er frábær árangur í golfmóti á Íslandi.

Skor og stöðu úr mótinu má sjá hér

Við þökkum keppendum öllum fyrir þátttökuna og óskum sigurvegurum til hamingju með frábæran árangur!

Golfklúbbur Reykjavíkur & Icelandair