Haraldur Franklín á lokaúrtökumóti fyrir Opna bandaríska meistaramótið

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur, verður á meðal keppenda á lokaúrtökumóti fyrir Opna bandaríska meistaramótið. Lokaúrtökumótið verður leikið þann 6. júní næstkomandi. Á fyrsta stigi úrtökumótsins var leikið á 110 völlum og tóku rétt um 9000 keppendur þátt. Alls komust 530 áfram á lokaúrtökumótið.

Nánari upplýsingar um fyrsta stig úrtökumótsins hér

Mótið sem Haraldur Franklín keppir á fer fram á Century Country Club og Old Oaks Country Club völlunum í Purchase, N.Y. Alls er keppt á 11 mismunandi keppnisstöðum – átta stöðum í Bandaríkjunum, einum í Kanada og einnig í Japan. Leiknar verða 36 holur á einum keppnisdegi. Fjöldi þeirra sem komast áfram inn á risamótið af hverjum velli fyrir sig ræðst af fjölda keppenda á hverjum velli og styrkleika hvers móts.

Nánar um lokaúrtökumótið hér

Opna bandaríska meistaramótið er eitt af fjórum risamótum ársins hjá atvinnukylfingum í karlaflokki. Risamótið fer fram dagana 16.-19. júní og verður leikið á The Country Club vellinum í Brookline, Massachusetts. Mótið í ár er það 122. í röðinni.

Við fylgjumst spennt með og óskum okkar manni alls hins besta á vellinum þann 6. júní.

Golfklúbbur Reykjavíkur