Haraldur Franklín í 2. sæti í Suður Afríku – undirbúningur fyrir Áskorendamótaröðina hafinn

GR-ingurinn Haraldur Franklín Magnús náði frábærum árangri þegar hann endaði í 2. sæti á atvinnumóti sem lauk í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í dag. Haraldur Franklín lék hringina þrjá á 203 höggum eða 13 höggum undir pari (67-67-69) og var aðeins einu höggi á eftir sigurvegaranum Ricky Hendler frá Suður-Afríku.

Mótið fór fram á Modderfontein vellinum og er hluti af IGT mótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröðin í Suður-Afríku. Hin þekkta Sunshine-mótaröð er sú sterkasta í Suður Afríku en sú mótaröð hefur alið af sér fjölmarga atvinnukylfinga sem hafa náð langt á heimsvísu.

Tvær vikur eru í fyrsta mótið á Áskorendamótaröðinni sem leikið verður á Fancourt vellinum í Suður Afríku dagana 10. – 13. febrúar. Haraldur Franklín ætlar að nota tímann vel til að hita upp og spila æfingahringi á þeim völlum sem leiknir verða á þeim þremur mótum sem framundan eru á Áskorendamótaröðinni.

Lokastöðu mótsins má sjá hér

Frábær árangur hjá okkur manni og óskum við honum áfram alls hins besta á vellinum.

Golfklúbbur Reykjavíkur