Haraldur Franklín náði sínum besta árangri á tímabilinu í Abu Dhabi um helgina

Haraldur Franklín náði sínum besta árangri á tímabilinu á Challenge Tour um helgina þegar hann endaði í 9. sæti á UAE Challenge mótinu sem fór fram á Saadiyat Beach vellinum í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Haraldur Magnús lék hringina fjóra á 9 höggum undir pari vallar (69-72-67-71) og var fimm höggum frá efsta sætinu.

Haraldur hefur tekið þátt á fimm mótum á tímabilinu en hans besti árangur hingað til var 13. sæti á móti sem fram fór í Suður-Afríku í febrúar. Hann fór upp um 33 sæti á stigalista mótaraðarinnar eftir mót helgarinnar og situr nú í 58. sæti. Í lok keppnistímabilsins komast 45 efstu á stigalistanum inn á lokamót tímabilsins – þar sem að keppt er um 20 laus sæti á DP World Tour mótaröðinni sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu hjá körlum.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Axel Bóasson voru einnig á meðal keppenda í Abu Dhabi og var þetta annað mótið í röð hjá íslensku kylfingunum á Challenge Tour.

Hér má sjá stöðu og úrslit úr mótinu

Við óskum okkar manni til hamingju með frábæran árangur um helgina!
Golfklúbbur Reykjavíkur