Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst á lokaúrtökumóti fyrir The Open

Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru báðir á meðal keppenda á lokaúrtökumóti fyrir The Open sem leikið verður á Old Course St. Andrews um miðjan júlí. The Open er eitt af risamótunum fjórum sem leikð er á þessu ári hjá atvinnukylfingum í karlaflokki.

Lokaúrtökumótið sem þeir Haraldur og Guðmundur leika á fer fram á Prince’s vellinum á Englandi en alls er leikið á fjórum keppnisvöllum á sama tíma í dag, þriðjudaginn 28. júní. Vellirnir sem keppt er á í dag eru Fairmont St. Andrews, Hollinwell, Prince’s og St. Annes old Links.

Keppnisfyrirkomulagið er höggleikur og verða leiknar 36 holur á einum keppnisdegi. Alls eru 288 keppendur sem leika á völlunum fjórum í dag og komast 16 áfram, fjórir af hverjum velli. Ef kylfingar eru jafnir í sætunum sem gefa keppnisrétt á Opna mótinu þá er leikinn bráðabani um það hverjir komast áfram.

Hér er hægt að fylgjast með stöðu og skori keppenda á Prince‘s
Hér er hægt að fylgjast með stöðu á öllum fjórum völlum lokaúrtökumóts

Haraldur Franklín lék á The Open árið 2018 en þá tryggði hann sér þátttökurétt eftir að hafa verið í einu af efstu sætunum á lokaúrtökumóti sem einnig var leikið á Prince’s. Þar lék hann á tveimur höggum undir pari samtals og tryggði sér keppnisrétt á Opna mótinu á Carnoustie vellinum – fyrstur íslenskra karlkylfinga.

Við óskum þeim Haraldi og Guðmundi alls hins besta á vellinum í dag!

Golfklúbbur Reykjavíkur