Keppni um Korpubikarinn hefst á morgun – gríðarlega sterkur keppendahópur

Keppni um Korpubikarinn, sem leikinn er í samvinnu við First Water, hefst á Korpúlfsstaðavelli á morgun, föstudaginn 31. maí. Mótið er fyrsta mót tímabilsins á GSÍ mótaröðinni og verða leiknar 54 holur eða þrír keppnishringir á þremur dögum.

Keppendahópurinn er gríðarlega sterkur, þar sem að fremstu atvinnukylfingar landsins eru á meðal keppenda – ásamt bestu áhugakylfingum Íslands.

Rástímar fyrir fyrsta keppnisdag hafa verið birtir og má sjá rástímana hér.

Í karlaflokki eru 66 keppendur. Þar er meðalforgjöf keppenda +1.3, lægsta forgjöfin er +6 og hæsta forgjöfin er 1.3. Í karlaflokki eru 43 keppendur með 0 eða lægra í forgjöf. Meðaldur keppenda í karlaflokki er tæplega 27 ár, elstu keppendurnir eru 55 ára og sá yngsti er 15 ára.

Hægt verður að fylgjast með skori og stöðu keppenda hér

Atvinnukylfingarnir Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson eru á meðal keppenda – en þeir hafa leikið á Challenge Tour á þessu tímabili, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu. Axel hefur titil að verja á þessu móti en hann er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi. Haraldur Franklín hefur einnig sigrað á Íslandsmótinu í golfi. Logi Sigurðsson, ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, er á meðal keppenda og Kristján Þór Einarsson, sem sigrað hefur tvívegis á Íslandsmótinu tekur einnig þátt.

Í kvennaflokki eru atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir á meðal keppenda. Þær hafa báðar leikið á LET Access atvinnumótaröðinni á þessu ári, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í kvennaflokki í Evrópu. Ragnhildur er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi en Guðrún Brá hefur þrívegis fagnað þeim titli.   Meðalforgjöfin í kvennaflokki er 0.2 en alls eru 21 leikmenn í kvennaflokki. Meðalaldurinn er 21 ár, þrír keppendur eru 15 ára og elsti leikmaðurinn er 32 ára.

Keppendur eru alls 87, og koma þeir frá 11 klúbbum víðsvegar af landinu.

GR er með flesta keppendur í mótinu eða 29 alls, GKG og GM eru báðir með 12 keppendur og GK er með 10. Sjö klúbbar eru með keppendur í kvenna -og karlaflokki.

Spennandi helgi framundan og hvetjum við alla áhugasama til að mæta á Korpu og fylgjast með keppni.

Golfklúbbur Reykjavíkur