Kirkjubólsvöllur er annar vinavöllur GR sumarið 2022

Kynning á vinavöllum félagsins fyrir árið 2022 hófst í síðustu viku og hefur áframhaldandi vinavallasamningur nú verið undirritaður við Kirkjubólsvöll hjá Golfklúbbi Sandgerðis. Klúbbarnir hafa átt gott samstarf í gegnum árin og er ánægjulegt að kynna félagsmönnum þennan áframhaldandi kost í vinavöllum.

Golfklúbbur Sandgerðis var stofnaður 24. apríl 1986 og hefur verið í stöðugri uppbyggingu síðan. Völlurinn er strandarvöllur, staðsettur að Vallarhúsum, sem liggur mitt á milli Sandgerðis og Garðs. Hjá Golfklúbbi Sandgerðis er öll sú þjónusta sem kylfingar óska eftir þegar vinavöllur er heimsóttur – glæsilegt klúbbhús sem býður upp á fyrsta flokks veitingar og púttflöt þar sem hægt er að æfa stutta spilið.

Sömu reglur gilda á Kirkjubólsvelli eins og áður á vinavöllum, félagsmenn Golfklúbbs Reykjavíkur greiða kr. 3.700 í vallargjald í hvert sinn er þeir leika Kirkjubólsvöll og skiptir þá ekki máli hvort leiknar séu 9 eða 18 holur. Rástímabókanir fara fram í gegnum Golfbox og skal ganga frá greiðslu vallargjalds áður en leikur hefst. Samkomulagið gildir ekki ef félagsmenn leika með hópum, sem gert hafa sérstaka samninga um afslætti af vallargjöldum, eins og t.d fyrirtækjamót.

Upplýsingar um vinavelli félagsins er að finna hér á vefnum undir „Golfvellir – Vinavellir“

Fylgist með því fleiri vinavellir verða kynntir félagsmönnum á komandi vikum.

Góða helgi!
Golfklúbbur Reykjavíkur