Mercedes-Benz – Holukeppni GR hefst formlega fimmtudaginn 6. júní

Opnað hefur verið fyrir skráningu í Holukeppni GR. Bílaumboðið Askja er styrktaraðili mótsins sem fyrr og er keppt um Mercedes-Benz bikarinn.

Fimmtudaginn 6. júní frá kl. 17-19 verður keppni formlega sett með Opnunarteiti á efri hæð Korpu. Boðið verður upp á léttar veitingar og keppendur fá afhenta teiggjöf ásamt því að tilkynnt verður hverjir það verða sem mætast í fyrstu umferð.

Þeir keppendur sem hafa óskað eftir rástíma í fyrstu umferð þennan sama dag, 6. júní, geta mætt tilbúnir til leiks og lagt af stað í fyrstu umferð að Opnunarteiti loknu. Hægt er að velja um hvaða völlur verður leikinn, Korpa eða Grafarholt. Aðrir keppendur þurfa að mæla sér mót og ljúka leik fyrir tilgreind tímamörk. Fyrsta umferðin skal leikin á tímabilinu 6. júní til 12. júní og að jafnaði eru 10-14 dagar veittir fyrir hverja umferð. Eftir hvern leik heldur sigurvegarinn áfram keppni og vinnur sér keppnisrétt í næstu umferð. Sá sem tapar leik hefur þar með lokið keppni.

Keppnin er opin öllum meðlimum GR 18 ára og eldri. Leikið er með forgjöf en hæst eru þó gefin 36 forgjafarhögg. Dregið er um röð keppenda þegar skráningu lýkur.

Golfbox kerfið getur haldið utan um allt að 128 keppendum, þannig að það er fjöldinn sem mest getur verið með. Fyrstir skrá sig, fyrstir fá að vera með.

Mótsreglur eða keppnisskilmálar má finna hér á vefnum undir Holukeppni GR. Þar er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar um holukeppnina.

Golfklúbbur Reykjavíkur í samstarfi við Bílaumboðið Öskju