Möskvi sigraði FootJoy bikarinn – liðakeppni GR

Um helgina fór fram úrslitaleikurinn í liðakeppni GR sem í ár bar heitið FootJoy bikarinn.

Það voru 19 lið sem skráðu sig til leiks. Liðunum var skipt í fjóra riðla og léku þar öll liðin innbyrðis, en leikirnir í riðlakeppninni fóru fram vikulega. Hver leikur var 9 holur þar sem leikinn var einn fjórleikur og fjórir tvímenningar. Það voru því 6 leikmenn sem léku hvern leik. Í úrslitaleiknum sem leikinn var um helgina léku 8 leikmenn í hvoru liði.

Síðastliðin þrjú ár á undan keppninni í ár sigraði golfhópurinn Nalúk og lék síðustu tvö árin til úrslita gegn golfhópnum Ásum. Bæði þessi lið komust áfram í 8 liða úrslit upp úr riðlakeppninni, ásamt Möskva, Skramba, naloH, Pottinum, Forynjum og Lið nr. 1.

Skrambi tók sig til og sló út úrslitalið síðustu tveggja ára og mættu síðan liði Möskva í úrslitaleik. Þar voru Möskvarnir hins vegar sterkari og unnu góðan sigur og þar með FooJoy bikarinn.

Í sigurliði Möskva voru þrjár kynslóðir leikmanna úr sömu fjölskyldu. Þetta eru Bogi Ísak Nilson og synir hans Bernhard Nils og Bogi Nils og sonarsonurinn Bogi Ísak Bogason. Þeir eru hér á myndinni með bikarinn. Aðrir á myndinni eru Gísli G. Hall og Hjalti Steinar Sigurbjörnsson. Á myndina vantar Stefán Þór Bogason og Gísla Borgþór Bogason.

OJK-ÍSAM er styrktaraðili keppninnar sem í ár bar heitið FootJoy bikarinn og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn.

Golfklúbbur Reykjavíkur