Alls eru níu íslenskir kylfingar skráðir til leiks á 1. stigi úrtökumótsins fyrir DP World Tour – sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki.
Á 1. stiginu fara úrtökumótin fram á níu keppnisstöðum á tímabilinu 27. ágúst – 27. september. Það má gera ráð fyrir að um 20 efstu af hverjum velli fyrir sig komist áfram á 2. stig úrtökumótsins.
Allar líkur eru á því að það verði 11 kylfingar frá Íslandi sem taka þátt á úrtökumótum fyrir DP World Tour á þessu ári og hafa þeir aldrei verið fleiri.
GR-ingarnir Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson fara að öllum líkindum beint inn á 2. stig úrtökumótsins – en 2. stigið er leikið á fjórum völlum á Spáni 31. október – 3. nóvember.
Lokaúrtökumótið, eða 3. stigið, fer fram á Infinitum völlunum við Tarragona á Spáni dagana 8.-13. nóvember. Þar fá 25 efstu keppnisrétt á DP World Tour
Böðvar Bragi Pálsson, GR, keppir dagana 10.-13. september á Arlandastad vellinum í Svíþjóð. Þetta er í annað sinn sem Böðvar Bragi tekur þátt en hann komst ekki í gegnum 1. stigið í fyrra.
Dagana 11. – 14. september keppa fimm íslenskir kylfingar á 1. stiginu á Golfclub Schloss Ebreichs í Austurríki.
Andri Þór Björnsson, GR, Aron Snær Júlíusson, GKG, Hákon Örn Magnússon, GR, Aron Gunnarsson, GOS og Logi Sigurðsson, GS.
Andri Þór hefur tekið þátt fimm sinnum áður, hann komst inn á 2. stigið í fyrstu tilraun árið 2016 og árið 2019 komst hann inn á lokaúrtökumótið, eða 3. stigið.
Aron Snær er að fara í fimmta sinn á úrtökumótið. Íslandsmeistarinn í golfi 2024 komst inn á 2. stigið árið 2017 þegar hann tók fyrst þátt.
Hákon Örn er að fara í þriðja sinn í þessa keppni. Aron Gunnarsson og Logi Sigurðsson hafa ekki farið áður á úrtökumótið fyrir DP World Tour.
Dagana 24. – 27. september verða þrír íslenskir kylfingar á úrtökumótinu sem fram fer á
Horsens Golfklub í Danmörku,
Axel Bóasson, GK, Bjarki Pétursson, GKG og Hlynur Bergsson, GKG
Axel er að fara í áttunda sinn á úrtökumótð. Hann tók fyrst þátt árið 2014. Hann komst inn á 2. stigið árið 2017 og 2023. Bjarki Pétursson er að fara í fjórða sinn í þetta ferli. Hann fór inn á lokaúrtökumótið, 3. stigið, árið 2019 þegar hann tók þátt í fyrsta sinn og á ný árið 2022 þegar hann tók þátt í annað sinn.