Ný 4. og 17. braut Grafarholts opna mánudaginn 17. júní

Kæru félagar,

Á næstkomandi mánudag, 17. júní, opnum við inn á nýju 4. og 17. braut í Grafarholtinu. Þetta er langþráð stund hjá okkur og við vonum að þið njótið vel.

Endurbygging á svona holum er mikið þolinmæðisverk. Hafist var handa við gerð 17. brautarinnar haustið 2022 eftir lokun vallarins. Fyrstu verkin voru gerð vinnustígs að svæðinu, þ.e. þar sem flötin og umhverfi hennar er. Fluttur var urmull efnis á svæðið til að hækka það, þar sem flatarsvæðið er á lægsta punkti Grafarholtsins og blautt eftir því. Hlaðinn var steinveggur meðfram vatninu og Grafarlæk, sem m.a. hefur það hlutverk að vera eins konar burðarveggur þannig að flötin sigi ekki. Á hinum enda brautarinnar var gerður stígur frá 16. flöt að nýju teigunum, þaðan að Grafarlæknum, þar sem við tekur ný brú. Frá lækjarbakkanum hinum megin heldur stígurinnn áfram í átt að nýju flötinni og svo áfram að 18. teig. Farið var í landfyllingu við sinn hvorn lækjarbakkann í þeim tilgangi að stytta brúarleiðina. Aukametrar þar hefðu verið kostnaðarsamir í brúarsmíðinni. Í landfyllinguna notuðum við grjótið sem við tókum úr 18. brautinni og kom það sér heldur betur vel þarna. Önnur vinna var dæmigerðari fyrir golfvallargerð, sem ekki verður farið nánar út í hér. Ræktun flatarinnar gekk mjög vel og hún hefur litið ljómandi vel út allt frá síðastliðnu hausti. Ástæðan fyrir því að við erum fyrst að hleypa inn á hana núna er að það tekur tíma að koma flötinni í það horf að unnt sé að slá hana niður í rétta sláttuhæð. Svona gras þarf aðlögun og ekki má ganga of nærri plöntunni, ekki frekar en ungabarni. En nú er komið að þessu hjá okkur. Tom McKenzie sá um alla hönnun. Þar erum við ekki eingöngu að tala um einfaldan uppdrátt af brautinni, heldur einnig burð, dren, brot í flöt o.s.frv. Okkar yfirvallarstjóri, Ellert Þórarinsson, stjórnaði framkvæmdum. Verkið var unnið af honum og okkar föstu vallarstarfsmönnum og þökkum við þeim öllum fyrir frábæra vinnu. Einnig er ástæða til að þakka Steindóri Eiðssyni ýtumanni, Baldvin Einarssyni, doktor í brúarsmíði hjá Eflu verkfræðistofu, og BM Vallá hf. fyrir þeirra mikilvægu aðkomu. Það er svo von okkar að þið félagsmenn munið njóta þessarar nýju og að okkar mati glæsilegu golfholu og gleymið ekki að virða fyrir ykkur útsýni yfir völlinn frá teig, alveg inn í dal.

Á fjórðu brautinni höfum við endurgert fyrri hluta brautarinnar, sem var einkar ósléttur fyrir. Lögun brautarinnar er breytt lítillega, ef svo má segja, en þess að því verði komið í orð hér. Þið sjáið það þegar þið leikið brautina. Gert er ráð fyrir sandgryfju í vinstri kanti brautarinnar en hún er enn ógerð. Brautin er nýtyrfð þegar þetta er ritað. Fyrstu dagana verður ekki unnt að slá hana, þannig að gæðin á henni verða takmörkuð fyrst um sinn, en svo á hún að verða fljót að jafna sig og verða betri heldur en gamla brautin.

 

Ástand vallanna
Við höfum verið heldur óheppin með ástand vallanna okkar nú í vor. Við fengum sveppasýkingu á Korpunni. Einkenni hennar eru litlir kalbletir í flestum flötunum. Við áætluðum að það myndi taka 2-3 vikur fyrir flatirnar að loka sér, með sáningum, þverskurðum í flatirnar, söndun, áburðargjöf o.s.frv., eins og vallarstjórar okkar frekast kunna. Allt var gert sem hægt var. Þá lentum við í óvenjulegu kuldakasti, sem leiddu til samsvarandi tafa á að þessar aðgerðir allar skiluðu tilætluðum árangri. Meðan á þeim stendur má ekki ganga of nærri flötunum með slætti. Af öllum þessum „góðu ástæðum“ hafa flatirnar ekki staðist væntingar okkar um gæði. Þetta vinnst eingöngu með þolinmæðinni og við treystum því að innan skamms tíma komist flatirnar í sitt besta ástand.

Grafarholtið kom þokkalega undan vetri og við höfum verið nær meðalári þar hvað vallargæði varðar. Við reiknum með miklum framförum þar á næstu dögum, auk þess sem við ætlum að hinar nýju brautir geri völlinn betri en hann hefur áður verið. Einu vonbrigðin þar hafa verið nýir teigar á 1., 17. og 18. braut, sem lifðu ekki af veturinn. Þessir teigar hafa verið lokaðir í vor vegna björgunaraðgerða. Við áætlum að opna inn á þá á næstkomandi þriðjudag. Þeir verða ekki komnir í ásættanlegt stand, en við teljum þó þann tíma kominn að rétt sé að opna inn á þá, en fylgst verður sérstaklega með umferðinni og stefni í óefni, þá getur komið til þess að við tökum bráðabirgðateiga fram aftur. Við vonum ekki.

Við þökkum ykkur þolinmæði og skilning í vor, meðan unnið hefur verið úr vandamálum sem hér hefur verið lýst. Þetta tekur á alla sem að koma. Á þessum árstíma er jafnan mikið álag á vallarstjórunum okkar. Við aðstæður eins og tæpt hefur verið á hér eykst þetta álag til enn frekari muna. Þeir hafa metnaðinn og þekkja hvað best kröfur félagsmanna. Við sem höfum fylgst með frá degi til dags vitum að þeir hafa gert allt, sem hægt er að gera, til að koma völlunum í það ástand sem við við viljum sjá þá í. Við væntum þess að sjá árangur erfiðisins innan skamms tíma, en biðjum ykkur um enn frekari þolinmæði þangað til.

Nýtt vallarmat var gert af vallarnefnd GSÍ fyrir Korpúlfsstaðavöll fyrir komandi sumar. Frekari upplýsingar um matið og forgjafatöflur má finna á þessari slóð – Korpúlfsstaðavöllur. Samhliða er í gildi vallarmat fyrir Grafarholtsvöll þar sem 4. brautin er par 3 og 17. brautin styttri en endanleg lengd hennar verður. Á mánudaginn kemur tekur gildi uppfært vallarmat og forgjafatafla á Grafarholtsvelli þegar 4. braut verður par 5 hola aftur og 17. brautin tekin í notkun.

Eins og staðan er núna þá eru forgjafatöflur sem hanga utan við klúbbhúsin ekki í gildi, réttar forgjafatöflur má finna á töflum inni í báðum klúbbhúsum. Nýjar og réttar forgjafatöflur verða settar upp utan við klúbbhús á næstu dögum.

Það eru skemmtilegir tímar framundan hjá okkur, 90 ára afmælismót og veisla um næstu helgi og það styttist í Meistaramót. Við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Golfkveðja,
Stjórn og starfsfólk GR.