Ólafía Þórunn afhenti klúbbnum golfpoka sinn sem þakklætisvott á aðalfundi

Ólafía Þórunn mætti til aðalfundar GR síðastliðinn þriðjudag og afhenti klúbbnum einn af þeim þremur pokum sem hún notaði á LPGA túrnum. Pokann afhenti hún klúbbnum sem þakklætisvott fyrir allan þann stuðning sem henni hefur verið sýndur í gegnum tíðina og á sínum ferli, hún sagðist vonast til þess að pokinn yrði yngri kylfingum hvatning í framtíðinni.

Fyrir rúmu ári tilkynnti Ólafía Þórunn að hún hefði ákveðið að hætta keppnisgolfi og snúa sér að öðrum verkefnum.

Það er ekki á neinn hallað þegar fullyrt er að Ólafia Þórunn Kristinsdóttir er sá íslenski kylfingur sem lengst hefur náð í keppnisgolfi. Hún er eini íslenski kvenkylfingurinn sem hefur náð inn á báðar stærstu mótaraðirnar, LET Evrópumótaröðina og LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum, og náði á ferli sínum að leika á öllum fimm risamótunum.  Þá var hún kosin Íþróttakona Reykjavíkur árin 2016 og 2017, og árið 2017 var hún kjörin íþróttamaður ársins hér á landi. Hún er eini kylfingurinn sem hefur hlotið þá nafnbót.  Ólafía Þórunn ólst upp í GR frá barnsaldri og keppti alla tíð undir okkar merkjum. Hún er og verður frábær fyrirmynd fyrir okkar yngri kylfinga.

Við þökkum Ólafíu Þórunni fyrir gjöfina og allt það góða sem hún hefur gert fyrir Golfklúbb Reykjavíkur sem fyrirmynd og afreksmaður.  Pokanum verður fundinn öruggur og viðeigandi staður hjá okkur.

Stjórn GR