Kæru félagar,
Á morgun laugardag hefst sumarvertíðin hjá okkur í golfinu, með opnun Korpúlfsstaðavallar. Í síðustu viku sendum við út fréttabréf um helstu framkvæmdir á völlunum okkar. Í þessu fréttabréfi er gerð grein fyrir nokkrum öðrum málum sem varða okkur klúbbmeðlimi miklu.
Skráningarreglur – fyrirvari á afskráningu lengdur í fjórar klukkustundir
Skráningarreglur GR eru aðgengilegar á vefsíðu okkar, sjá hér – Reglur um rástíma. Við hvetjum klúbbmeðlimi til að rifja þær upp. Það er ein breyting frá því í fyrra. Hún er að fyrirvari á afskráningu er fjórar klukkustundir í stað tveggja. Ætlunin með breytingunni er að lágmarka hættu á að rástími fari forgörðum vegna síðbúinnar afskráningar og gefa þeim, sem vilja nýta pláss sem kunna að losna, lengri fyrirvara á því.
Framkvæmdir á Korpunni
Þegar þið spilið Korpuna sjáið þið að töluverðar framkvæmdir hafa verið og eru í gangi, m.a. malbikun stíga. Það hefur mikið mætt á starfsmönnum okkar í vetur og mun gera áfram í sumar. Við biðlum til ykkar að sýna framkvæmdunum þolinmæði. Frágangsvinna mun fyrirsjáanlega taka lengri tíma, einkum og sér í lagi frágangur meðfram malbikuðu stígunum. Allt mun þetta skila sér í stórbættum velli.
Viðhorfskönnun – helstu niðurstöður – aðgerðir til að tryggja leikhraða
Í vetur gerðum við okkar árlegu viðhorfskönnun og höfum borið saman við niðurstöður síðustu ára. Sem fyrr er mikil ánægja er með þjónustu og viðhorf starfsfólks okkar, sem og veitingasölu. Hástökkvarar frá því í fyrra eru Básar og vallarþjónusta (ræsar). Einkunn fyrir gæði valla er í jafnvægi, en gæta ber að því að síðastliðið sumar komu vellirnirnir okkar óvenju illa undan vetri. Það sem fer niður á við er leikhraði og aðgengi að rástímum. Þessi atriði skipta gríðarlega miklu máli fyrir klúbbinn og þau tengjast innbyrðis, eins og hér verður varpað ljósi á.
Golfhringur á að taka 4 klukkustundir og 20 mínútur að hámarki, og það á að halda í við næsta holl. Þetta er ekki smekksatriði eða ákvörðun hvers og eins kylfings, heldur golfregla. Við viljum öll fylgja golfreglunum og þessi er þar á meðal. Þesis tími – 4 klst. og 20 mínútur á að vera feykinógur og ekki kalla á neitt stresskast.
Ein augljós leið til að bæta leikhraða er að auka bil milli rástíma, en þá fækkar rástímunum og færri komast að. Á Korpunni ræsum við út með 8 / 9 mínútna millibili til skiptis, en 9 mínútna millibili í Grafarholti. Okkur er ljóst að þetta er þétt ræsing og hún gengur ekki nema allir leggist á eitt, þ.e. að halda leikhraða, að haldið sé í við næsta holl. Í stað þess að gefast upp og fækka rástímunum ætlum við að gera betur og auka leikhraða með öðrum aðgerðum sem við höfum undirbúið. Hér er yfirlit yfir þær helstu:
- Bætt úrval teiga og áhersla á að kylfingar velji teiga eftir getu. Í stað gömlu litmerkinga teiga, sem tengd voru við kyn og aldur, tökum við upp teigmerkingar eftir lengdum. Hver og einn kylfingur velur sér teig eftir lengd burtséð frá kyni.
Svo höfum við bætt við nokkrum nýjum framteigum frá því í fyrra, sem eru til þess fallnir að flýta leik á holum þar sem helst hafa myndast tafir og basl. Við leggjum mikla áherslu á að kylfingar velji sér teig eftir getu. - Kynning og fræðsla. Það eiga allir kylfingar að geta haldið uppi leikhraða, óháð getu. Fræðsla, þekking og meðvitund um leikhraða eru lykilatriði og eftir þessu hafa margir klúbbmeðlimir kallað. Við í GR höfum látið útbúa nýtt kynningarefni, þar sem við ætlum að fræða klúbbmeðlimi, með einföldum skilaboðum, hvernig þeir geta flýtt eigin leik og bætt umgengni á völlunum okkar, sjá dæmi hér
- Bætt vallarþjónusta og eftirlit. Meginhlutverk starfsmanna í vallarþjónustu eru annars vegar að taka á móti kylfingum á fyrsta teig og fylgja þeim úr hlaði, og hins vegar að fylgjast með leik úti á velli, aðstoða ef tafir myndast og bregðast enn frekar við reynist það nauðsynlegt. Oftast nægir létt áminning og vallarstarfsmenn geta gefið merki. Í erfiðari tilvikum geta vallarstarfsmenn lagt fyrir kylfinga að færa sig á fremri teiga, þ.e.a.s. ef þeir hafa ekki valið þá fyrir. Dugi það ekki og óeðlilega langt bil verður milli holla, geta vallarstarfsmenn lagt fyrir holl að sleppa braut þannig að það nái hollinu á undan. Það er beinlínis hlutverk og skylda vallarstarfsmanna að beita þessum úrræðum þegar þeir meta það svo að þess þurfi. Munum og höfum hugfast, að það erum við klúbbmeðlimir sjálfir sem höfum lagt áherslu á leikraða. Það er því í þágu okkar kylfinga að vallarstarfsmenn sinni þessu hlutverki sínu þegar það á við og við verðum að sýna því fullan skilning og stuðning.
- Rafrænt upplýsingakerfi – „Tag Marshal“. Við höfum fjárfest í upplýsingakerfi, „Tag Marshal“, sem áætlum að innleiða í byrjun næsta mánaðar. Í stuttu máli gengur það út á að hvert og eitt holl fær með sér litið stykki („tag“) með tölvuflögu sem hengt er á eitt golfsettið. Þannig getur vallarstarfsmaður fylgst með staðsetningu allra holla á vellinum á hverjum tíma á tölvuskjá og mætt þar sem þörfin er hverju sinni. Kerfið heldur utan um margvíslegar mikilvægar upplýsingar sem safnast í gagnabanka, sem dæmi heildartíma hvers og eins golfhrings sem er spilaður og hvernig hann skiptist á einstakar brautir. Þannig getum við fylgst nákvæmlega með hvort við séum að ná markmiðum okkar um leikhraða yfirleitt, hvort vandamál tengist einstökum holum, tíma innan dags, uppsetningu valla, áhrif veðurs o.s.frv. Allt mun þetta auðvelda okkur ákvarðanir í framtíðinni um þau málefni, sem hér hefur verið tæpt á.
- Notum Thorsvöll. Við leggjum aukna áherslu á að bæta vallargæði Thorsvallar. Hann er vanmetinn golfvöllur og með betri gæðum á hann að vera alvöru valkostur fyrir félagsmenn.
Við erum vongóð um að ná markmiðum okkar og kröfum um leikhraða. Það á enginn að þurfa að fá stresskast, 4 klst. og 20 mínútur á að vera mjög ríflegur tími fyrir einn golfhring. Eins og hér hefur verið útskýrt er þetta ekki einungis spurning um leikhraða, heldur einnig markmið um að aðgengi að rástímum. Við munum fylgjast vel með því hvernig þetta gengur. Náist markmið um leikhraða ekki með aðgerðunum sem hér hafa verið útskýrðar, þá er líklega ekki annað úrræði eftir en að auka bil milli rástíma, sem þýðir þá að færri komast að.
Því leggjum við áherslu á að við leggjumst á eitt um að ná þessum markmiðum, með jákvæðni að leiðarljósi, og fáum þannig meira út úr golfinu. Við hlökkum til að sjá ykkur á völlunum okkar og í golfskálunum í sumar, svo og Básum auðvitað, og vonum að þið eigið þar margar og ánægjulegar stundir.
Stjórn og starfsfólk GR