Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili voru báðar má meðal þátttakenda á 1. stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina sem er efst í styrkleikaflokki atvinnumótaraða kvenna í Evrópu. Alls eru 156 keppendur á mótinu og komast 62 efstu áfram inn á lokaúrtökumótið. Keppendur sem eru jafnir í sæti nr. 62 komast inn á lokaúrtökumótið.
Leikur á 1. stigi úrtökumótsins hófst á laugardag, 10. desember og lauk í dag. Leikið var á tveimur völlum á Real Golf La Manga Club á Spáni. Úrtökumótið fyrir LET Evrópumótaröðina hefur farið fram á Norður- og Suður völlunum á La Manga.
Ragnhildur lauk leik á samtals +14 sem dugði ekki til að koma henni áfram á lokaúrtökumótið. Guðrún Brá lauk leik á +4 sem skilar henni í 20. sæti og hefur með þeim árangri unnið sér inn þátttökurétt á lokaúrtökumóti.
Reikna má með að keppendur verði um 130 á lokaúrtökumótinu en á síðasta ári fengu 23 efstu keppendurnir keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Gera má ráð fyrir að svipaður fjöldi fái keppnisrétt eftir lokaúrtökumótið 2022.
Skor, stöðu og úrslit úr mótinu má sjá hér
Golfklúbbur Reykjavíkur