Leikinn var 36 holu höggleikur á Le Golf National vellinum í París, sem reynir á allar hliðar golfsins.
Karlar leika völlinn af svörtum teigum, 6650 metrar og konur af bláum teigum, 5246 metrar.
Eftir fyrri 18 holurnar voru það Veigar Heiðarsson og Ragnhildur Kristinsdóttir sem leiddu mótið. Veigar lék hringinn á 67 höggum og var með eins höggs forystu á þá Andrá Má Guðmundsson og Val Snæ Guðmundsson. Ragnhildur lék á 62 höggum, eða 10 undir pari, og var með fjögurra högga forystu á Evu Kristinsdóttur og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur.
Seinni 18 holurnar voru sýndar í beinni útsendingu á bæði Stöð 2 Sport og Facebook síðu GSÍ. Mikil vinna er lögð í mótið og gaman að sjá afrakstur þess og spilamennsku þeirra flottu kylfinga sem við eigum.
Seinni hringurinn spilaðist erfiðari en sá fyrri, en vindurinn í golfhermunum var aukinn milli hringja. Sú breyting hafði áhrif á spilamennsku, en einungis þrír kylfingar skiluðu inn betra skori í rokinu á seinni hringnum.
Eftir frábæran fyrri hring tryggði Ragnhildur sér sigurinn með því að leika aftur best allra kvenna á seinni hringnum, eða á 69 höggum. Hún sigraði mótið með fimm högga mun og reyndist sigurinn aldrei í hættu. Eva Kristinsdóttir endaði í öðru sæti á -8 eftir tvo flotta hringi og Guðrún Brá tók þriðja sætið með samanlagt skor upp á -1.