Rástímaskráning hefst á Thorsvöll frá og með 24. apríl!
Golfklúbbur Reykjavíkur tilkynnir að rástímaskráning fyrir Thorsvöll í gegnum Golfbox hefst á Sumardaginn fyrsta eða fimmtudaginn 24. apríl. Völlurinn verður þar af leiðandi eingöngu opinn félagsmönnum GR, sem og þeim kylfingum sem hafa sérstaka Thorsvallaraðild – þeir sem vilja kynna sér hvað felst í Thorsvallaraðild geta skoðað það á heimasíðunni okkar https://grgolf.is/golfvellir/thorsvollur/.
Rástímaskráning fyrir Thorsvöll opnast miðvikudaginn 23. apríl kl. 14:00, og frá þeim tíma verður hægt að bóka rástíma allt að átta daga fram í tímann. Reglur um rástímaskráningu og leikfyrirkomulag komandi sumars verða kynnt formlega við opnun Korpu, sem stefnt er að verði laugardaginn 10. maí.
Völlurinn naut mikilla vinsælda yfir páskahátíðina og því viljum við minna félagsmenn á mikilvægi þess að ganga vel um völlinn. Við hvetjum alla kylfinga til að laga kylfuför á brautum og boltaför á flötum.
Golfklúbbur Reykjavíkur