Stefnt er að opnun Korpu laugardaginn 7. maí næstkomandi og Grafarholts viku síðar eða laugardaginn 14. maí. Veðurfar hefur verið gott undanfarna daga og hafa vellirnir tekið á sig grænan lit sem er góð byrjun og vekur félagsmenn til tilhlökkunar.
Miklar framfarir hafa verið á völlunum að undanförnu en klaki er nýlega farinn úr jörðu víða og stór svæði þurfa nú tíma til að þorna áður en hægt er að hleypa umferð inn á þau af fullum krafti. Nokkrar brautir eru enn verulega blautar og grunnvatnsstaða á Korpúlfsstöðum há. Völtun brauta er komin vel af stað á Korpu og verður í beinu framhaldi farið að valta í Grafarholti.
Vallarstarfsmenn vinna hörðum höndum að þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að ljúka áður en vellir klúbbsins opna. Viðhald göngustíga, kantskurður á glompum, yfirferð á merkingum, söndun og sláttur teiga og flata, áburðardreifing á brautir, hreinsun svæða, sópun á bílaplönum, viðhaldi klósettaðstöðu, standsetningu vökvunarkerfis eru til dæmis þau verkefni sem unnið er að.
Miklar nýframkvæmdir hafa verið unnar á völlum klúbbsins á liðnum vetri. Nýir teigar eru í byggingu á 17. braut Korpúlfsstaða, nýir teigar á 1. braut í Grafarholti og unnið er að sléttun 18. brautarinnar þar sömuleiðis.
Gangi öll verkefni eftir eins og lagt er upp með í dag verður hægt að opna velli klúbbins, í sínu besta mögulega ástandi, eins og áður sagði – Korpuna 7. maí og Grafarholtið 14. maí.
Nánari upplýsingar um opnun valla verða sendar út þegar nær dregur.
Golfklúbbur Reykjavíkur