Nú er golfsumarið að líða undir lok og ýmislegt hefur verið gert í kvennastarfi GR í sumar. Nefndin er ánægð með starfsárið. Við viljum þó leggja áherslu á að ef einhver vill taka þátt í starfi nefndarinnar eða er með tillögu um nýja viðburði þá má endilega hafa samband við kvennanefndina á grkvennanefnd@gmail.com
Púttmót
Kvennastarfið byrjaði í janúar með golfa.is púttmótaröð þar sem þátttökumet var slegið. 182 konur tóku þátt í mótinu sem endaði með stórskemmtilegu og fjölmennu lokahófi.
Vormót
Áætlað var að hafa vormót í lok maí hjá Golfklúbbi Suðurnesja og ætluðu GR konur að fjölmenna í mótið. Mótið fylltist fljótt enda konur spenntar að komast út á völl enda tafir á opnunum valla á Höfuðborgarsvæðinu. Veðurguðirnir voru okkur því miður ekki hliðhollir svo það þurfi að blása mótið af. Gengur vonandi betur næsta vor.
Sumarmótaröð í samvinnu við TA sport
Stærsti viðburðurinn okkar í sumar var hin árlega sumarmótaröð sem að þessu sinni var haldin í samstarfi við TA Sport. Leiknar voru 8 umferðir ýmist á Korpu eða Grafarholti og oftar enn ekki lék veðrið við okkur. 141 kona tók þátt í mótinu og var það Hafdís Hafsteinsdóttir sem stóð uppi sem sigurvegari með hvorki meira né minna enn 169 punkta úr 4 hringjum. Við þökkum TA Sport fyrir samstarfið og GR konum fyrir góða þátttöku í mótinu.
Miðnæturmót
Miðnæturmót var á planinu í kringum Jónsmessuna í lok júní og var skráning og undirbúningur hafinn en því miður þurfum við aftur að aflýsa vegna veðurs. Þar sem hugmyndin er góð munum við stefna á samskonar mót aftur næsta sumar.
Nýliða- og háforgjafarmót
Í ágúst var svo sú nýjung að haldið var nýliða- og háforgjafarmót fyrir þær sem voru með 32 eða hærra í forgjöf. Þetta mót heppnaðist afskaplega vel og var mikil ánægja með það. Mótið var 9 holu mót sem var leikið á Landinu. Við munum klárlega hafa nýliðamót aftur næsta sumar og þá bjóða upp á fleiri pláss þar sem færri komust að en vildu þetta árið.
9 holu haustmótaröð í samvinnu með golfa.is
Önnur nýjung þetta sumarið var 9 holu haustmótaröð. Leikið var í 2 forgjafaflokkum, 0 – 31,9 og 32 – 54. Þessi mótaröð var í samstarfi við golfa.is. Okkur fannst tilvalið að prófa þetta þegar dag er tekið að stytta og ekki alltaf tími og dagsbirta fyrir 18 holur. 4 umferðir voru leiknar á 9 holu lykkjunum á Korpu. Við munum skoða forsendur verða fyrir því að endurtaka mótið þar sem þátttaka var undir væntingum.
Haustmót
Sumarið var svo gert upp með því að halda Haustmót GR kvenna í Grafarholti 17. september. Spilað var punktakeppni og höggleikur. Mótið var vel sótt og var orðið fullt í mótið á innan við sólarhring eftir að skráning hófst og biðlistar farnir að myndast.
Eftir nokkurra ára hlé var loks krýndur höggleiksmeistari GR kvenna sem fékk farandbikar ásamt ýmsum vinningum. Tvær konur enduðu á 86 höggum sem voru þær Helga Friðriksdóttir og Guðný María Guðmundsdóttir en Helga var betri á seinni 9 og var því krýndur sigurvegari. Punktakeppnin fór þannig að Sólveig Jóhanna Haraldsdóttir sigraði með 38 punkta.
Lokahóf
Eftir Haustmótið var svo haldið allsherjar lokahóf GR kvenna til að loka sumarmótaröð, haustmótaröð og haustmótinu. Boðið var upp á dýrindis mat frá KH Klúbbhúsi ásamt eftirréttum. Verðlaun voru veitt fyrir 3 mót auk þess sem fjölmörg útdráttarverðlaun. Veitt voru nándarverðlaun fyrir öllu mótin og lengsta drive í Haustmótinu.
Jón Sigurðsson trúbador kom og hélt uppi miklu fjöri eftir matinn og myndaðist skemmtileg stemning í hópnum.
Kvennanefndin ákvað að bjóða fjórum konum sem heiðursgestum í lokahófið en það eru þær Valgerður Proppé 94 ára, Hrafnhildur Einarsdóttir 97 ára, Guðrún Andrésdóttir 90 ára og Selma Hannesdóttir 90 ára. Þessar konur eru fyrirmyndir okkar og aldursforsetar GR kvenna og voru þær heiðraðar með gjöfum og lófataki.
Að lokum viljum við í kvennanefndinni þakka fyrir gott samstarf í sumar og öllum þeim sem hafa styrkt okkur með gjöfum og verðlaunum. Síðast enn ekki síst ykkur GR konum fyrir að mæta í viðburðina hjá okkur því án ykkar væri lítið kvennastarf í GR.
Hlökkum til að starfa áfram með ykkur og í vetur munum við vera með dagskrá í golfhermum og púttmótaröð.
Kvennanefnd Golfklúbbs Reykjavíkur 2022-2023
Aðalbjörg Ársælsdóttir
Auður Arna Arnardóttir
Guðrún Íris Úlfarsdóttir – gjaldkeri
Halldóra Jóhannsdóttir
Karen Guðmundsdóttir
Kristín Halla Hannesdóttir
Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir