Reglur um Rástíma

Almennar reglur

Golfvellir GR eru takmarkaðar auðlindir sem mikilvægt er að félagsmenn beri virðingu fyrir.  Markmið þessara reglna er að tryggja jafnræði félagsmanna við rástímabókanir og tillitsemi verði gætt.  Brot gegn reglunum eru brot gegn réttindum annarra félagsmanna.  Viðurlög eru ákveðin út frá því sjónarmiði.

Bókanir rástíma fara fram í gegnum skráninga- og forgjafarkerfið Golfbox  samkvæmt þeim skilmálum sem þar gilda.  Notendaskilmála Golfbox má finna hér og teljast þeir hluti af reglum þessum um rástímabókanir á golfvöllum GR.

Samkvæmt notendaskilmálum Golfbox er óheimilt að bóka rástíma með hvers kyns hugbúnaði, þ.m.t. svokölluðum skriftum, sem hannaður hefur verið til að skrá eða auðvelda skráningu rástíma í Golfbox og er til þess fallinn að veita viðkomandi forskot umfram aðra við rástímaskráningu.

Hver félagsmaður getur skráð sjálfan sig og allt að þrjá aðra meðspilara að teknu tilliti til mismunandi tímafresta sem gilda hverju sinni um skráningar félagsmanna og utanfélagsmanna.

Af tillitssemi við aðra ber leikmönnum sem bókað hafa rástíma sem þeir geta ekki nýtt að afbóka sig eins skjótt og unnt er.  Lágmarksfyrirvari er tvær klukkustundir  fyrir viðkomandi rástíma. Afskráningar skulu fara fram í gegnum Golfbox.  Gildir það sama um nafnbreytingar.

GR mælist til þess við félagsmenn að þeir leyfi ekki öðrum að skrá þá í rástíma nema þeir hafi samþykkt að mæta í rástímann sjálfir.  Annað felur í sér tillitsleysi gagnvart öðrum.

Áður en leikur er hafinn skal leikmaður staðfesta mætingu í rástíma annað hvort í gegnum Golfbox app eða í golfverslun.  Eftirlitsmenn og starsfólk í golfverslun eru til aðstoðar ef þörf er á.

Reglur í Gildi

Reglur sem gilda frá opnun valla 2023:

Ræst verður út á Korpúlfsstaðavelli með 8 mínútna millibili.
Ræst verður út á Grafarholtsvelli með 8/9 mínútna millibili.

Skráningartímabil er átta dagar fram í tímann og er opnað fyrir skráningu kl. 20:00.  Sem dæmi opnar fyrir skráningu kl. 20:00 á sunnudegi fyrir mánudag í næstu viku (þ.e. átta dögum síðar).

Viðurlög við brotum:
Mæti félagsmaður ekki í rástíma sem hann hefur skráð sig í, án þess að hafa afbókað sig með minnst tveggja klukkustunda fyrirvara samkvæmt framangreindum reglum, sætir hann sjálfkrafa skráningarbanni í Golfbox kerfinu í viku. Viðkomandi félagsmaður getur leikið skráða hringi á tímabilinu ef einhverjir eru. Skráningarbann tekur gildi þegar rástímabókun opnast næsta dag.  Ef ekki er mætt í rástíma á mánudegi sem dæmi, þá hefur félagsmaður ekki heimild til að bóka sig á viku tímabili sem hefst á þriðjudeginum daginn eftir.

Samkvæmt notendaskilmálum Golfbox er óheimilt að bóka rástíma með hvers kyns hugbúnaði, þ.m.t. svokölluðum skriftum, sem hannaður hefur verið til að skrá eða auðvelda skráningu rástíma í Golfbox og er til þess fallinn að veita viðkomandi forskot umfram aðra við rástímaskráningu. Hvers kyns brot gegn þessu eru alvarleg og skulu varða brottvikningu úr Golfklúbbi Reykjavíkur samkvæmt 8. gr. laga klúbbsins.

Öðrum brotum á reglum þessum verður vísað til aganefndar sem ákveður hæfileg viðurlög, að teknu tilliti til alvarleika brota.  Viðurlög geta verið áminning, skráningarbann í tiltekinn tíma og brottvikning úr Golfklúbbi Reykjavíkur.

Framangreindu til viðbótar kunna brot gegn notendaskilmálum Golfbox að leiða til viðurlaga af hálfu Golfbox og/eða Golfsambands Íslands.

Annað:
GR áskilur sér rétt til að breyta reglum þessum ef tilefni verða til þess.  Breytingar skulu tilkynntar með fréttabréfi og á vefsíðu klúbbsins.

Stjórn GR