Bændaglíma GR 2024 – skráning hefst kl. 13:00 á fimmtudag

Bændaglíma GR 2024 verður leikin laugardaginn 28. september á Grafarholtsvelli. Ræst verður út af öllum teigum kl. 12:00 og verður þema dagsins íslensku fánalitirnir.

Keyrðar verða út veigar í fljótandi og föstu formi um völlinn til þess að keppendur hafi orku fyrir allar þær þrautir sem lagðar verða fyrir. Pylsupartý verður inn í húsi á 1.teig og 10 teig.

Bændur að þessu sinni verða nýjasta kærstupar klúbbsins Karen Guðmundsdóttir og Andri Þór Björnsson og munu keppendur skiptast í lið þeirra Karen & Andri

Mótsgjald er kr. 8.900 á mann og greiðist hjá veitingasala þegar mætt er til leiks. Mæting í klúbbhús kl. 11:00 og ræst út af öllum teigum samtímis kl. 12:00.

Skráning í Bændaglímu hefst fimmtudaginn 19. september kl. 13:00 og fer fram í mótaskrá á Golfbox: athugið að lið geta valið teig og skráð sig saman.

Að leik loknum verður blásið til borðhalds þar sem liðin bera saman bækur sínar í Grafarholtsskála og verðlaunaafhending fer fram.

Matseðill kvöldsins hjá Mjöll og Gumma verður þessi:

  • Forréttur
    • Nauta Carpaccio m/klettasalati, balsamik og parmesan
  • Aðalréttur
    • Confit önd m/rauðvínssósu, sellerírótarmauki og grænmeti
  • Eftirréttur
    • Sætir bitar og kaffi

Leikfyrirkomulag mótsins er Texas scramble höggleikur með forgjöf, fjórir leikmenn saman í liði. Forgjöf liðs er samanlögð vallarforgjöf leikmanna deilt með 10. Hámarksforgjöf sem gefin er til hvers leikmanns er 36. Til að gera leikinn ennþá skemmtilegri verður eftirfarandi regla í gildi: Skylt verður að velja að minnsta kosti tvö teighögg frá hverjum liðsmanni.  Annað hinna völdu teighögga verður að vera á par 3 holu.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í liðakeppni og nándarverðlaun þeim leikmanni sem næstur er holu eftir upphafshögg á öllum par 3 holum vallarins.

Félagsmenn mega eiga von á skemmtilegu kvöldi í góðum félagsskap á þessu lokakvöldi tímabilsins.

Við minnum á að aldurstakmark til þátttöku í Bændaglímu er 20 ár.

Hlökkum til að sjá ykkur!
Golfklúbbur Reykjavíkur