Böðvar Bragi Pálsson er Íslandsmeistari í holukeppni karla 2025.
Böðvar Bragi sigraði Aron Snæ Júlíusson frá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, í úrslitaleiknum sem fram fór í dag á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Þetta er í fyrsta skiptið sem Böðvar sigrar mótið, en hann lék frábært golf í mótinu.
Tómas Eiríksson Hjaltested varð þriðji, en hann sigraði Arnar Daða Svavarsson frá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, 2/1 í leiknum um bronsverðlaunin.
Úrslitaleikurinn fór hratt af stað fyrir Böðvar Braga. Eftir fugla á holum 2, 3 og 5 var hann kominn þrjár holur upp. Aron fékk fugl á sjöundu holu, og báðir fengu þeir svo fugl á þá áttundu. Böðvar því fjóra undir pari eftir átta holur, en einungis tvær holur upp. Fimmti fugl Böðvars kom á níundu holu, og hann kom því í gegn á 30 höggum og þrjár holur upp.
Aron reyndi við flöt á 10. holu en missti driveið út til hægri. Staðan því orðin mjög góð fyrir Böðvar, sem sigraði holuna. Tveir skollar, á holum 11 og 15 gerðu leikinn örlítið spennandi, en þrír fuglar Böðvars á holum 12, 13 og 16 gerðu útslagið, og var sigurinn í höfn á 16. flötinni eftir frábært fuglapútt Böðvars.
Leið Böðvars í úrslitin má með sanni segja að hafi verið ótrúleg. Hann sýndi mikinn karakter í sigrum sínum, fór í bráðabana um að komast inn í holukeppnina og fór lengst 23 holur í útsláttarkeppninni.
Mótið hófst á 36 holu höggleik á laugardaginn, 21. júní, þar sem Böðvar endaði jafn fjórum öðrum kylfingum í 13. sæti. Einungis 16 kylfingar komust áfram, þannig þeir þurftu fimm að leika bráðabana um hverjir færu áfram í útsláttarkeppnina. Böðvar fékk fugl á fyrstu holu bráðabanans og tryggði sig beint áfram.
Í 16 manna úrslitunum mætti hann Veigari Heiðarssyni, sem var líklega leikur mótsins. Veigar lék frábærlega, og var sjö undir pari og þrjár holur upp eftir þrettán. Eftir það fékk Böðvar þrjá fugla í röð, jafnaði leikinn og kom sér í bráðabana. Bráðabaninn entist í fimm holur. Eftir fjögur pör frá báðum kylfingum fékk Veigar fugl. Það dugði ekki til, þar sem Böðvar fékk ótrúlegan örn og tryggði sér sæti í 8 manna úrslitunum.
Í 8-manna úrslitum lék Böðvar við klúbbfélaga sinn Andra Þór. Leikur Böðvars og Andra var sá síðasti í umferðinni, þar sem Böðvar tók sinn tíma í að sigra leik sinn í 16 manna úrslitunum. Leikurinn var jafn allan tímann og voru þeir báðir í forystu á tímabili. Sjö fuglar Böðvars reyndust lykillinn að sigrinum, en leiknum lauk á 18. holu, 1/0.
Í undanúrslitum mættust klúbbfélagarnir Böðvar Bragi og Tómas Hjaltested. Tómas hafði leikið frábærlega í mótinu og gerði sig líklegan að sækja titilinn í mótinu. Böðvar hafði önnur áform, lék hringinn fimm undir pari og sigraði 7/5, sem var stærsti sigur mótsins. Hann kom því heitur inn í úrslitaleikinn, þar sem hann hélt góðri spilamennsku sinni áfram.
Golfklúbbur Reykjavíkur óskar Böðvari Braga innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn og Tómasi Hjaltested með þriðja sætið. Áfram GR!