Fréttabréf frá stjórn – Viðhorfskönnun GR

Í febrúar sl. gerði GR viðhorfskönnun meðal félagsmanna golfklúbbsins. Viðhorfskannanir hafa áður verið gerðar en ekki með samræmdum og kerfisbundnum hætti. Ætlun stjórnar GR er að svona könnun verði hér eftir gerð a.m.k. árlega. Þá er ekkert sem stendur því í vegi að gera viðhorfskannanir um einstök málefni þess á milli, þyki ástæða til.

Greinilegt er á svörum félagsmanna að þeir taka þessari nýbreytni opnum örmum. Svörun var mjög góð og svo hafa margir látið jákvæð orð falla um þetta framtak á öðrum vettvangi. Margar góðar ábendingar komu fram í opnu spurningunum. Þetta styrkir sambandið milli stjórnar og félagsmanna og hjálpar til við ákvarðanatöku um fyrirliggjandi verkefni.

Í vinnu við könnunina var ákveðið að hafa spurningar ítarlegar og nákvæmar, í þeim tilgangi að GR geti fylgst með þróun mála í mismunandi þáttum í starfsemi GR.  Spurningarnar tóku til eftirfarandi þátta:

 1. Grafarholt
 2. Korpa
 3. Thorsvöllur
 4. Básar og Grafarkot
 5. Golfskálar
 6. Barna-, unglinga- og afreksstarf
 7. Almenn þjónusta
 8. Veitingaþjónusta

Eftir aðalfund sl. haust ákvað stjórnin að setja á fót nokkrar nefndir/starfshópa um nokkra stærstu málaflokkana. Sem dæmi var sett á fót vallarnefnd fyrir Grafarholt, vallarnefnd fyrir Korpúlfsstaði, nefnd um æfingaaðstöðu GR og nefnd um aðgengi (rástímar) að völlunum. Þessar nefndir hafa unnið mikla og góða vinnu og sett fram tillögur til stjórnar. Vinna nefndanna og niðurstöður viðhorfskönnunarinnar eru góður grunnur fyrir stjórn til að taka ákvarðanir út frá.

Þetta er fyrsta fréttabréfið af þremur til fjórum á næstunni, þar sem stjórn gerir grein helstu niðurstöðum viðhorfskönnunarinnar og ákvörðunum stjórnar, leitast hefur verið við að taka tillit til þess sem fram hefur komið. Í þessu fyrsta fréttabréfi í röðinni verða Básar teknir fyrir.

Básar
Nefnd um æfingaaðstöðu GR hefur skilað minnisblöðum til stjórnar GR í nokkrum áföngum á undanförnum mánuðum.  Verkefnið er viðamikið og unnt að greina það í nokkra undirþætti, m.a. Bása. Niðurstaða nefndarinnar er að kominn sé tími á uppfærslur og endurbætur á Básum, þannig að þeir svari nútímakröfum. Nefndin hefur skilað stjórn GR ýmsum tillögum. Ljóst er að í Básum eru vaxtartækifæri og unnt að bæta þjónustu við félagsmenn.

Í viðhorfskönnuninni voru niðurstöður tiltölulega skýrar um að tími er kominn á uppfærslu Bása. Þeir komu ekki nægilega vel út úr spurningum um útlit og upplifun, gæði motta, gæði bolta og svæðið sem slegið er út á.  Að teknu tilliti til þessa setti stjórn í forgang að bæta þessa lykilþætti í starfsemi Bása og hafa eftirfarandi aðgerðir verið ákveðnar:

 1. Lögð verða ný gólfefni – gervigras – á 1. og 2. hæð Bása. Mikil þróun hefur átt sér stað í  gervigrasi á undanförnum árum og verður valið það gervigras á sláttusvæðin sem líkist sem mest brautargrasi þ.a. upplifunin verði því sem næst að vera á braut. Þetta mun einnig skapa meiri hlýleika í Básum.
 2. Settar verða upp hurðir á 2. hæð eins og eru á 1. hæð. Þessi verkliður er nauðsynlegur af mörgum ástæðum, m.a. til að verja Básana, þ.m.t. ný gólfefni, fyrir snjó og verstu veðrunum.
 3. Útisvæðið verður tekið í gegn í haust. Slétt verður úr svæðinu, settar drenlagnir og lagt á nýtt gervigras sem klúbburinn hefur nú þegar tryggt sér aðgang að. Markmiðið er að kylfingar geti séð lendingu og rúll bolta alla leið. Með nýju og mýkra gervigrasi verður lending bolta nær því sem gengur og gerist úti á velli. Til viðbótar er ætlunin að koma upp girðingu í kringum svæðið. Með þessum aðgerðum næst margt fram:
  a) Boltatínsla verður auðveldari
  b) óhæfileg boltarýrnun ætti að tilheyra sögunni
  c) unnt verður að skafa snjó af svæðinu ef svo ber undir
  d) forsendur verða til að endurskoða val á tegund æfingabolta
  e) svæðið verður áhugaverðara að slá út á og endurgjöf til kylfingsins meiri, m.a. með skýrari skotmörkum í mismunandi lengdum
  f) trackman range og  ֦virtual golf“, sem verður tekið upp, njóta sín betur
 4. Útveggir Bása verða einangraðir að utanverðu.  Það eykur skjól auk þess að vera viðhaldsaðgerð sem kominn er tími á.

Markmiðið er að liðir 1 og 2 komi til framkvæmda sem fyrst, vonandi núna á vormánuðum.  Ætlunin er að ráðast í liði 3 og 4 á haustmánuðum. Þá hafa komið fram tillögur um fleiri verkliði en stjórn er einhuga um að forgangsraða á þann hátt sem hér hefur verið lýst. Í framhaldi verður tekin ákvörðun um næstu skrefin á eftir. Markmiðið er að bæta upplifunina af Básum og gera æfingar þar hvorutveggja árangursríkari og skemmtilegri.

Grafarkotsvöllur
Gerðar verða nokkrar endurbætur á Grafarkotsvelli strax í vor. Teigar verða endurnýjaðir með nýju gervigrasi. Þá verða teigmerkingar endurnýjaðar og komið fyrir ruslafötum og hreinsibúnaði. Allt er þetta í samræmi við ábendingar í viðhorfskönnuninni og er markmiðið að gera völlinn betri og snyrtilegri.

Nýtt Íþróttahús við Bása
Viðræður við Reykjavíkurborg eru yfirstandandi um byggingu íþróttahúss við Bása. Verkefnið er stærra en svo að klúbburinn ráði við það án samstarfs við borgina. Verkefnið er mjög brýnt og vonandi fæst niðurstaða í það sem allra fyrst en stjórn biður félagsmenn um áframhaldandi þolinmæði hvað það varðar um sinn. Félagsmenn verða upplýstir um gang málsins.

Kær kveðja,
Stjórn GR