Liðakeppni öldunga

Ný keppni var sett á laggirnar í sumar. Það var liðakeppni fyrir félagsmenn GR sem eru 65 ára gamlir eða eldri. Fyrirfram var ákveðið að leika skyldi 7 umferðir og leikmenn hefðu 7 til 10 daga til þess að leika hverja umferð. Raðað var í hverja umferð eftir stöðu keppninnar hverju sinni eftir svokölluðu Monrad kerfi sem þekkt er úr skák.

Keppt var í fjórleik með forgjöf sem þýðir að tveir leikmenn leika gegn öðrum tveimur og borin saman betra skorið á hverri holu. Leiknar voru 9 holur á Korpu í hverri umferð. Það voru 16 lið með 32 keppendum sem skráðu sig til leiks.

Úrslit liggja fyrir í keppninni og þar lenti í þriðja sæti liðið Hinir heppnu, en það voru Hans Óskar Isebarn og Daði Kolbeinsson. Í öðru sæti var Bráðin með leikmennina Sigurdór Stefánsson og Guðmund Rúnar Bragason. Bæði liðin fengu 5 vinninga af 7 mögulegum, mótherjar beggja liða voru með jafnmarga vinninga, en Bráðin vann innbyrðis viðureign þessara liða og hljóta því annað sætið. Sigurliðið í þessari keppni var Tengdó sem hlaut 6,5 vinninga af 7 mögulegum. Það lið er skipað þeim Guðmundi S. Guðmundssyni og Ragnari Ólafssyni.

Við óskum Tengdó til hamingju með glæsilegan sigur í liðakeppni öldunga.

Golfklúbbur Reykjavíkur