Ný og endurbætt 18. braut Grafarholtsvallar verður tekin í notkun laugardaginn 29. júlí

Næstkomandi laugardag, 29. júlí, verður ný og endurbætt 18. braut Grafarholtsvallar tekin í notkun.  Hún er hönnuð af hinum virta golfvallararkitekt Tom Mackenzie. Framkvæmdir við brautina hófust 29. nóvember 2021. Verkefnið hefur verið óvenju stórt miðað við að um eina golfbraut er að ræða. Sem dæmi nam grjót, sem fjarlægt var úr brautinni, meira en 2000 tonnum. Gríðarlegt efni þurfti í brautina sem að mestu leyti fékkst frá verktökum í byggingarframkvæmdum í borginni.

Veðurguðirnir voru okkur ekki sérlega hliðhollir og verður sú saga ekki sögð hér. Ferlið með þessa braut hefur verið lærdómsríkt fyrir okkur sem að verkefninu hafa komið. Það mun nýtast klúbbnum vel við alla ákvarðanaöku um frekari uppbyggingu á vellinum.

Allir sem að verkefninu hafa komið hafa sýnt mikinn metnað og umhyggju fyrir því. Afraksturinn er  glæsileg og mjög krefjandi lokahola.

Þó svo að við opnum brautina fyrir leik núna, þá eru frágangsatriði eftir, m.a. frágangur svæða kringum teiga (sú vinna stendur yfir) og að fjarlægja göngustíg í vinstri kanti brautarinnar. Það verður gert þegar við teljum rétta tímann vera til þess. Verkefninu er því ekki endanlega lokið þó að við opnum holuna nú. Þá er það einnig þannig að grassvörðurinn í brautinni sjálfri á eftir að þéttast með tímanum. Okkar fagfólk er sammála um að nú sé rétti tíminn til að opna og að brautin hafi gott af því að fá þann ágang, sem hún þarf að venjast.

Af hvítum teigum er brautin 394 metrar, af gulum teigum 350 metrar, af bláum teigum 341 metri, af rauðum teigum 279 metrar og af gull teigum verður brautin 211 metrar.

Á laugardaginn verður 18. braut uppfærð í Golfbox úr par 3 í par 4 og par vallarins sömuleiðis úr 70 í 71.

Stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur vill koma fram sérstökum þökkum til Ellerts Þórarinssonar sem stjórnað hefur framkvæmdum af miklum myndarbrag ásamt þeim Darren Lee Farley og Bjarna Grétari Sigurðssyni. Einnig ber að nefna Tom MacKenzie arkitekt og Steindór Eiðsson á jarðýtunni, sem hefur reynst okkur ómetanlegur í þessu verki, eins og reyndar fleirum fyrir klúbbinn á liðnum árum.

Að lokum þökkum við félagsmönnum okkar fyrir þeirra áhuga og mikla og góða þolinmæði á meðan framkvæmdum hefur staðið. Það er von okkar að þið munið njóta þessarar nýju holu í framtíðinni.

Stjórn & starfsfólk Golfklúbbs Reykjavíkur