Ragnhildur okkar Kristinsdóttir, atvinnukylfingur, braut blað í sögu golfs á Íslandi í morgun þegar hún sigraði Vasteras Open mótið í Svíþjóð. Hún er fyrsti íslenski kylfingurinn sem sigrar á LET Access mótaröðinni!
Mótið fór fram á Skerike Golfklubb vellinum í Svíþjóð og áttunda mót Röggu á tímabilinu. Í síðustu viku hafnaði Ragga í 2. sæti á Swedish Strokeplay Championship, hún hefur verið að spila frábært golf undanfarnar vikur og með árangri sínum í síðustu viku jafnaði hún besta árangur íslensks kylfings á LET Access mótaröðinni en eftir sigurinn í dag braut hún blað! Ragga situr í 13. sæti stigalistans fyrir þetta mót og mun því koma sér enn ofar með árangri dagsins.
Ragga lék best allra kylfinga á fyrsta keppnisdegi og endaði á sjö höggum undir pari eða 65 höggum. Á seinni níu þennan dag setti Ragga í fluggírinn og fékk fimm fugla og einn örn, pútterinn var greinilega heitur hjá Röggu þennan dag þar sem hún púttaði einungis tíu sinnum á seinni níu. Annan hringinn lét Ragga á tveimur höggum undir pari, seinni hluta hringsins lék Ragga frábært golf og fékk þrjá fulga á síðustu fjórum holunum sem skilaði henni 2. sætið fyrir lokahringinn í dag.
Þriðja hringinn lék Ragga á 73 höggum, einum yfir pari. Eftir tvo fugla á fyrstu holunum kom tvöfaldur skolli á sjöundu holu. 35 högg á fyrri níu holunum dugðu til að vinna upp forystu Amalie Leth-Nissen, sem leiddi mótið fyrir hringinn. Ekkert mátti skilja þær stöllur að á seinni níu holunum, og voru þær jafnar að sautján holum liðnum. Á átjándu holunni fékk Ragga par, á meðan Amalie fékk skolla. Stáltaugar á síðustu holunni sigldu sigrinum heim, og Ragnhildur brýtur blað í sögu golfs á Íslandi.
Við óskum Ragnhildi innilega til hamingju með sigurinn!