Tómas og Hulda Clara sigruðu í keppni um Hvaleyrabikarinn

Tómas Eiríksson Hjaltested, GR og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG stóðu uppi sem sigurvegarar í Hvaleyrarbikarnum sem lauk í dag á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili. Mótið var fimmta mótið á GSÍ stigamótaröðinni á þessu tímabili.

Þetta er í fyrsta sinn sem Tómas sigrar á GSÍ stigamóti en Hulda Clara sigraði á þessu móti í fyrra en hún er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi.

Tómas lék hringina þrjá á 5 höggum undir pari samtals eða 211 höggum (65-71-75) en hann setti vallarmet á fyrsta keppnisdegi þegar hann lék á 7 höggum undir pari vallar. Jóhann Frank Halldórsson, einnig úr GR og Breki Gunnarsson Arndal, GKG, urðu jafnir í öðru sæti á 4 höggum undir pari.

Hulda Clara lék á 225 höggum eða 9 höggum yfir pari vallar (76-73-76) og sigraði hún með fimm högga mun. Eva Kristinsdóttir, GM og Berglind Erla Baldursdóttir, GM voru jafnar í öðru sæti á 230 höggum eða +14 samtals.

Smelltu hér fyrir stöðu, rástíma og úrslit:

Smelltu hér fyrir myndir frá Hvaleyrarbikarnum 2024:

Við óskum Tómasi og Huldu til hamingju með glæsilegan sigur og öðrum sigurvegurum til hamingju með flottan árangur!

Golfklúbbur Reykjavíkur