Vellir GR opna fyrir félagsmönnum laugardaginn 27. maí – félagsmenn fá inneign á boltakort í Básum

Eins og áður hefur verið tilkynnt munu báðir vellir félagsins opna formlega laugardaginn 27. maí næstkomandi. Venja er að vellir séu formlega opnaðir með opnunarmótum, en þar sem þetta vor hefur ekki verið venjulegt og sökum slæmrar veðurspár fyrir helgina verður sá háttur ekki hafður á þessa opnunarhelgi.  Áætlað er að opnunarmót verði haldið um þar næstu helgi (3. eða 4. júní) og verður það kynnt sérstaklega.

Á laugardaginn verði opnað fyrir almennan leik frá kl. 08:00 og mun opna fyrir bókanir kl. 20:00 miðvikudaginn 24. maí. Fyrst um sinn verður hægt að bóka rástíma í Grafarholtið og á 18 holur Korpu – Sjórinn/Áin. Landið þarf ennþá tíma til að jafna sig eftir kaldan og erfiðan vetur og verður tilkynnt þegar opnun verður fyrirhuguð á þeim hluta vallarins.

Stjórn félagsins mun senda frá sér tilkynningu um regluverk vegna rástímabókana áður en opnað verður fyrir skráningu á morgun.

Þar sem þetta golfsumar er að fara óvenju seint af stað og ásókn í Bása hefur verið mikil, tilkynnist hér með að hver og einn félagsmaður fær 5.000 króna inneign á boltakort í Básum.  Vinsamlegast gefið ykkur fram í afgreiðslu Bása til að nýta inneignina.

Kveðja,
Stjórn & starfsfólk GR